

Sjálfsskaðahegðun unglinga - fyrir fagfólk
Sjálfsskaða- og sjálfsvígshegðun unglinga er vaxandi vandi á vesturlöndum og víða farið að skilgreina hana sem lýðheilsuvanda. Hegðunin er þess eðlis að hún veldur álagi og spennu innan fjölskyldna, meðal unglinga og hjá þeim sem starfa með unglingum. Ástæðan er m.a. sú að erfitt getur verið að greina á milli sjálfsskaðahegðunar sem hefur þann ætlaða tilgang að lifa og sjálfsvígstilraunar sem hefur þann ætlaða tilgang að deyja.
Sjálfsskaða- sjálfsvígshugsanir og hegðun eru algengari og óstöðugri (geta komið og farið nokkuð skyndilega) hjá unglingum heldur en fullorðnum m.a. vegna aldurs-, þroska- og aðstæðutengdra áhrifaþátta. Sjálfsskaði er ekki sjúkdómur eða röskun heldur hegðun sem gefur eingöngu til kynna að eitthvað er ekki í lagi. Ekki hefur verið hægt að sýna fram á að einhver einn áhættuþáttur sé áberandi líklegri en annar til að unglingur byrji að skaða sig. Tilgangurinn er oftast að losa um innri spennu/streitu, auk þess sem smitáhrif í umhverfinu geta haft töluverð áhrif.
Þar sem sjálfsskaða- og sjálfsvígshegðun er orðin nokkuð algeng er mikilvægt að fagfólk, sem vinnur með unglingum, þekki hvernig best er að bregðast við miðað við þá þekkingu sem til er í dag.
Á námskeiðinu fjallar Kristín Inga Grímsdóttir, sérfræðingur í barna- og unglingageðhjúkrun, um:
- Skilgreiningar á sjálfsskaða- og sjálfsvígshegðun, algengi, tilgangi og samverkandi áhrifaþáttum.
- Helstu ástæður þess að sjálfsskaða- og sjálfsvígshegðun veldur álagi, spennu og streitu meðal foreldra, unglinga, fagfólks og annarra sem starfa með unglingum.
- Smitáhrif í vinahópum.
- Mat á alvarleika og gagnleg/ógagnleg viðbörgð foreldra, fagfólks og annarra sem starfa með unglingum.
- Hvaða meðferðir lofa góðu varðandi árangur.