

Fréttir af eldfjöllum Íslands 2025
Í fyrirlestrum verður gerð grein fyrir eftirliti með íslenskum eldfjöllum, atburðarás, ferlum sem í gangi eru, og núverandi stöðu þeirra. Námskeiðið er sjálfstætt framhald af námskeiðum um íslensk eldfjöll sem haldin hafa verið hjá EHÍ nokkrum sinnum síðan 2009.
Megnið af þeim mælingum sem fram fara á íslenskum eldstöðvum er aðgengilegt almenningi. Í námskeiðinu verður lögð áhersla á að skýra aðferðir og sýna hvernig finna má upplýsingarnar og túlka þær. Farið verður yfir atburðarás síðustu áratuga í eldstöðvarkerfum á Íslandi, s.s. Bárðarbungu, Grímsvötnum, Kötlu, Heklu, Öræfajökli, Öskju, Torfajökli, Hofsjökli, Eyjafjallajökli, Reykjanesskaga (Fagradalsfjalli, Svartsengi), og Ljósufjöllum. Tekið verður saman yfirlit um núverandi ástand eldstöðvanna og hugsanlegar sviðsmyndir um þróun virkninnar.