

Dagskrárgerð fyrir hlaðvarp og útvarp
Á þessu námskeiði munu nemendur kynnast fjölbreyttum hliðum dagskrárgerðar fyrir útvarp og hlaðvarp. Kafað verður ofan í framleiðsluferlið, form og uppbyggingu, viðtalstækni, skrif fyrir hljóðlestur, samtalsstjórn o.fl. með hlustunardæmum úr öllum áttum. Að námskeiði loknu munu nemendur hafa aflað sér allra helstu upplýsinga til að stíga sín fyrstu skref í dagskrárgerð.
Á námskeiðinu verður kafað ofan í framleiðsluferli útvarps- og hlaðvarpsþátta. Hugað verður að hugmyndavinnu og uppbyggingu hljóðefnis sem og helstu aðferðum sem beitt er við framleiðslu þess eins og viðtalstækni og handritagerð. Farið verður á greinandi hátt yfir samsetningu þátta; skoðuð verða helstu tæki sem notuð eru við vinnsluna, klipping í forritum verður kennd sem og önnur hljóðvinnsla.
Í kennslustundum verður virk samhlustun þar sem hlustað verður á útvarps- og hlaðvarpsþætti og tekið eftir þeim hugtökum sem kennd eru en þátttakenndum gefst einnig kostur á að þróa eigin hugmyndir að þáttum í gegnum námskeiðið og vinna stuttar æfingar sem hjálpa þeim að taka fyrstu skrefin í framleiðsluferli eigin þáttar.