

Salka - ástin og dauðinn
„Hvernig skyldu menn lifa á svona stað? Og hvernig skyldu menn deyja?“
Námskeiðið er haldið í tengslum við leiksýningu Landnámsseturs Íslands í Borgarnesi og Þjóðleikhússins, Salka – ástin og dauðinn. Unnur Ösp Stefánsdóttir semur og flytur leikverkið, sem byggt er á fyrri hluta Sölku Völku eftir Halldór Laxness, Þú vínviður hreini. Í sýningunni þræðir Unnur Ösp sig í gegnum sögu Sölku Völku, einnar eftirminnilegustu persónu Halldórs Laxness, umvafin tónlist úr plötusafni höfundarins sem var honum innblástur við skrif bókarinnar. Í návígi við áhorfendur kallar Unnur fram stórbrotnar persónur sögunnar, með magnaðan texta Laxness að vopni.
Á námskeiðinu fjallar Halldór Guðmundsson um skáldsöguna Sölku Völku. Unnur Ösp Stefánsdóttir segir frá tildrögum sýningarinnar og nálgun sinni við efniviðinn. Námskeiðinu lýkur með sýningu verksins í Landnámssetrinu í Borgarnesi, og eftir sýningu er boðið upp á umræður með Unni Ösp.