

Heyrðu, ha?
Heyrðu, ha?
Að greina og skapa trúverðug samtöl
Flest skynjum við þegar samtöl í sjónvarpi eru stirð og óraunveruleg, en oft er erfitt að átta sig á hvað veldur. Samtöl geta verið óþarflega formleg, tónfallið á skjön og þýðingin skrýtin. Á þessu námskeiði verður fjallað um undirstöðuatriði samtalsgreiningar (e. Conversation Analysis) og hvernig þau nýtast til að a) fá aukinn skilning á íslensku talmáli og b) skapa trúverðug samtöl í leiknu efni og texta. Samtalsgreining er sú fræðigrein sem hefur rannsakað mest notkun tungumálsins í hversdagslegum samskiptum og hentar því vel til að rýna í talað mál. Hver eru einkenni hversdagslegra samskipta og hvaða gildrur þurfum við að forðast við skrif, þýðingar, leik og talsetningu til að samtöl hljómi eðlileg?
Á námskeiðinu munum við skoða hvernig fólk talar í raun og veru: hvernig við skiptumst á orðum, bregðumst við, hikum, grípum fram í, framkvæmum hluti (beint eða óbeint) og stýrum flæði samtala með orðum á borð við „heyrðu“, „hérna”, „þú veist“, „ha“ og „öhm“. Byggt verður á raunverulegum samtölum á íslensku og ensku og dæmi tekin úr talsettu barnaefni. Markmiðið er að þátttakendur fái nýja sýn á íslenskt talmál og þær ósýnilegu reglur sem móta öll mannleg samskipti. Námskeiðið veitir fræðilegan en aðgengilegan grunn sem þátttakendur geta síðan nýtt í eigin sköpun, við kennslu og greiningu á málnotkun – eða bara í eigin lífi.