

Al-Andalus: Saga múslima á Íberíuskaga
Í um átta aldir, frá 711 til 1492, réðu múslimar að meira eða minna leyti yfir Íberíuskaga, þar sem í dag eru Spánn og Portúgal, og kölluðu ríki sitt Al-Andalus. Í námskeiðinu munum við fara yfir helstu tímabil og atburði sem mótuðu þá sögu og skoða ýmsar merkar minjar á sviðum byggingarlistar, bókmennta, lista og fræða.
Á þessu námskeiði verður farið yfir tæplega átta hundruð ára sögu múslima á Spáni. Meðal umfjöllunarefna verður aðdragandi og framvinda innrásar múslima á Íberíuskaga árið 711, ríki múslima og blómaskeið þess næstu aldir, uppgang lista, bókmennta, byggingarlistar og fræða, mikilvægi arabíska tungumálsins og þýðingar á verkum arabískra fræðimanna á latínu. Sérstakri athygli verður beint að merkustu minjum þessa tímabils eins og Alhambra í Granada og moskunni í Cordoba. Einnig munum við skoða hvernig hugmyndir Evrópumanna um íslam og múslima mótuðust að hluta til vegna kynna þeirra af múslimum á Spáni, og hvernig kristin samfélög náðu yfirhöndinni á Íberíuskaga á síðmiðöldum. Að lokum verður arfleifð Al-Andalus skoðuð, hvernig það hefur innblásið bókmenntir, fræði og tónlist síðari tíma, og svo hvernig Spánverjar og aðrir túlka þessa áhugaverðu og umdeildu fortíð.