

Portúgal: Lissabon
Á þessu skemmtilega tveggja kvölda námskeiði fjallar Guðlaug Rún Margeirsdóttir um Lissabon - höfuðborg Portúgal, á notalegu nótunum en hún bjó í borginni um árabil.
Farið verður í ferðalag um þessa einstöku borg, Lissabon, með það að markmiði að þátttakendur komist í kynni við borgina, landið og þjóðina. Gefið er yfirlit yfir sögu og sögulegt mikilvægi Lissabon sem höfuðborgar Portúgal. Kafað er ofan í list og menningu borgarinnar - allt frá hinum litríku byggingum og handmáluðu flísalistaverkum (azulejos) sem prýða borgina til líflegrar matarmenningar. Fjallað er um úthverfi borgarinnar, sem eru hluti af borginni en hafa um leið sín eigin sérkenni og ólíka menningu. Einnig er fjallað um hvað einkennir þjóðarsál Portúgal og Lissabon. Farið er yfir áhugaverða áfangastaði í nágrenni borgarinnar og jafnframt hvað borgin býður upp á sem miðstöð til fleiri áfangastaða í Portúgal.