

Katrín mikla
Þýska stúlkan sem óvænt varð keisaraynja Rússlands. Hertogadóttirin sem varð á 18. öld einvaldur yfir einhverju rammasta feðraveldi Evrópu. Keisaraynjan sem lagði Krímskaga og Úkraínu undir Rússa og limaði sundur Pólland. Konan sem hafði hugrekki til að láta eftir sér bæði ást og nautnir.
Einn ótrúlegasti kafli sögu Evrópu á seinni tímum er keisaratíð Katrínar miklu í Rússlandi 1762-1796. Hún gerði Rússland að sannkölluðu stórveldi í Evrópu og gerði markvissa tilraun til að tengja það evrópskum menningarstraumum. Hún reyndi að bæta hag almennings en gat líka sýnt mikla hörku þegar svo bar undir. Hún var fjörmikil og lífsglöð en lét fjölmarga elskhuga sína aldrei komast upp með moðreyk.
Á námskeiðinu verður fjallað um þetta allt saman á líflegan og aðgengilegan hátt.