

SQL fyrirspurnarmálið
Á námskeiðinu er farið ítarlega í fyrirspurnarmálið SQL. Fjallað verður um skipulag venslagagnasafna og flóknari gerðir SQL fyrirspurna æfðar í fría gagnasafnskerfinu SQLite.
Nær öll gagnasafnskerfi í dag eru byggð á venslalíkaninu og nota SQL fyrirspurnarmálið til að vinna með gögnin. Það er því mikilvægt fyrir þá sem vinna mikið með gagnasöfn að skilja eiginleika þessara kerfa, bæði möguleika þeirra og takmarkanir.
Þetta er seinna námskeiðið af tveimur um gagnasafnskerfi og SQL fyrirspurnarmálið. Á þessu námskeiði er farið í flóknari SQL fyrirspurnir, meðal annars innri og ytri tengingar á töflum, undirfyrirspurnir, samsetningu fyrirspurna með mengjavirkjum og sýndartöflur. Einnig eru skoðaðar skorður sem hægt er að setja á töflur og hvernig vísar geta aukið hraða fyrirspurna. Gerðar eru æfingar í fría gagnasafnskerfinu SQLite, en það er mjög einfalt í uppsetningu og er eitt mest notaða gagnasafnskerfið í heiminum í dag.