

Verkefnastjóri - velsældarfræði
Sálfræðideild Háskólans í Reykjavík leitar að kraftmiklum einstaklingi í fjölbreytt og krefjandi starf verkefnastjóra til að vinna að stofnun námslínu á sviði velsældarfræði sem verið er að þróa í samstarfi Háskólans í Reykjavík, Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri og Landlæknisembættisins. Um er að ræða tímabundið starf til tveggja ára með möguleika á framlengingu.
Velsældarfræði er tiltölulega nýtt fræðasvið, sem enn er í mótun. Á alþjóðavettvangi er vaxandi áhugi fyrir breytingu í átt að velsældarhagkerfi þar sem lögð er áhersla á mannlega og vistfræðilega velsæld í hagkerfinu í stað þess að einblína á efnahagslegan vöxt. Alþjóðlegar áskoranir á borð við geðheilbrigðisvanda, loftslagskreppur, heimsfaraldra og vaxandi ójöfnuð undirstrika mikilvægi þess að efla menntun og rannsóknir á þessu sviði. Markmiðið með námslínunni er að leiða saman fólk frá ólíkum fræðasviðum til að móta frekar fræðasviðið og mennta fólk sem getur tekið þátt í innleiðingu á hugmyndafræði velsældarfræðanna í samfélaginu.
STARFSSVIÐ
- Utanumhald með uppsetningu námsbrautar í samvinnu við þverfaglegan hóp sérfræðinga
- Ýmis konar gagnaöflun og greiningarvinna í tengslum við uppsetningu námsbrautar
- Þátttaka í stefnumótun, markaðssetningu og kynningu námslínunnar
- Umsjón með verkefnum tengdum samstarfi við samfélagið og ytri hagaðila
- Uppbygging námsskrár og aðstoð við námslýsingar og kennsluskipulag
- Skráning námskeiða, kennara og námsefnis
Í boði er spennandi starf í metnaðarfullu og lifandi háskólaumhverfi. Starfið veitir ýmis tækifæri til að sýna frumkvæði með það að markmiði að skapa framúrskarandi náms- og vinnuumhverfi fyrir nemendur.
HÆFNISKRÖFUR
- Háskólamenntun á grunn/meistarastigi eða hærra (sálfræði, félagsvísindi, lýðheilsa, hagfræði, eða tengd svið)
- Rík þjónustulund og lipurð í mannlegum samskiptum
- Mikil skipulagshæfni og frumkvæði í starfi
- Reynsla af þverfaglegu samstarfi og hæfni til að vinna sjálfstætt og í teymi.
- Reynsla af verkefnastjórnun, þróun námsleiða eða rannsóknarverkefna er mikill kostur.
- Þekking og/eða áhugi á velsældarhugmyndum og sjálfbærni.
- Góð íslensku- og enskukunnátta (bæði talað og ritað mál)
- Góð tölvukunnátta nauðsynleg
Æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf í september 2025. Með öllum umsóknum skal fylgja góð ferilskrá. Einnig er beðið um kynningarbréf þar sem umsækjandi rökstyður ástæður þess að vera rétta manneskjan í starfið. Umsóknarfrestur er til og með 25. maí 2025 og skal umsóknum skilað á vef Háskólans í Reykjavík.
Nánari upplýsingar um starfið veita Hildur Droplaug Pálsdóttir ([email protected]) skrifstofustjóri sálfræðideildar og/eða mannauðsdeild ([email protected]). Farið er með allar fyrirspurnir og umsóknir sem trúnaðarmál.













