Verkefnastjóri aðfanga og útboða - Veitingaþjónusta
Við leitum að öflugum og metnaðarfullum einstaklingi til að taka að sér hlutverk verkefnastjóra aðfanga og útboða í Veitingaþjónustu Landspítala. Í boði er spennandi starf í lifandi umhverfi sem einkennist af virku umbótastarfi í hópi öflugra einstaklinga þar sem drifkraftur og frumkvæði fá að njóta sín.
Veitingaþjónusta rekur eitt stærsta framleiðslueldhús á Íslandi en þar eru daglega framleiddar um 6000 máltíðir fyrir sjúklinga, aðstandendur og starfsfólk. Deildin starfrækir jafnframt 9 matsali og 2 kaffihús undir nafninu ELMA. Hjá Veitingaþjónustu Landspítala starfa um 100 einstaklingar í samhentri deild og fást þar við fjölbreytt og skemmtileg verkefni. Dæmi um einingar innan veitingaþjónustu eru t.d. framleiðslueldhús sjúklinga, sjúkrahótel og ELMA matsalir og kaffihús Landspítala.
Við leitum að drífandi einstaklingi sem býr yfir menntun og þekkingu í málaflokknum, hefur framúrskarandi samskiptahæfni og þjónustulund. Viðkomandi mun taka virkan þátt í uppbyggingu ferla þar sem áhersla verður á skilvirkni, gagnsæ vinnubrögð, rekjanleika og hagkvæmni.
Starfið skiptist í nokkra megin þætti. Daglegt utanumhald málaflokksins, þátttöku og verkefnastýringu umbótaverkefna, eftirlit með verðlagi ásamt gagnagreiningu og skýrslugerð. Starfið felur í sér mikil samskipti bæði innan og utan deildar. Viðkomandi mun taka virkan þátt í starfi innkaupa- og vöruteymis Veitingaþjónustu Landspítala
Starfshlutfall er 100% og er starfið laust samkvæmt samkomulagi.