

Teymisstjóri öryggisþjónustu á Landspítala
Við leitum að öflugum teymisstjóra sem hefur brennandi áhuga á að styðja mikilvæga starfsemi öryggisþjónustu á einum stærsta vinnustað á landinu, Landspítala.
Öryggisþjónusta heyrir undir deild fasteigna- og umhverfisþjónustu Landspítala sem tilheyrir rekstrar- og mannauðssviði. Innan öryggisþjónustu starfa 25 einstaklingar að mikilvægri þjónustu fyrir spítalann þar sem öryggi sjúklinga, starfsfólks og aðstandenda er haft að leiðarljósi. Öryggisþjónusta skiptist í eftirlit og vaktmiðstöð. Eftirlit felst meðal annars í að bregðast við útköllum á deildum, reglulegum eftirlitshringjum og aðstoð við fasteigna- og umhverfisþjónustu eftir þörfum. Vaktmiðstöð fylgist með öryggis- og eftirlitskerfum spítalans.
Teymisstjóri öryggisþjónustu ber ábyrgð á daglegum rekstri einingarinnar í samræmi við þjónustuloforð, stefnu og gildi Landspítala. Viðkomandi sinnir samskiptum við starfsfólk á öllum sviðum starfseminnar og vinnur með teyminu að umbótatækifærum. Teymisstjóri fer á milli allra starfstöðva og hefur yfirsýn yfir þjónustu og þjónustuþætti. Teymisstjóri öryggisþjónustu heyrir beint undir deildarstjóra.
Við sækjumst eftir einstaklingi með brennandi áhuga á teymisvinnu og að byggja upp og viðhalda sterkri liðsheild. Einstaklingi sem hefur jákvætt viðhorf til fjölbreytileika hvað varðar verkefni og mannauð. Teymisstjóri vinnur náið með stjórnendum, starfsfólki og hagaðilum innan og utan spítalans að framþróun, þjónustu og umbótum. Starfshlutfall er 100% og er starfið laust samkvæmt samkomulagi.


























































