

Skapandi sumarstörf
Í sumar býðst einstaklingum og hópum á aldrinum 18-25 ára (fæddir 2000-2007) að koma með hugmyndir að skapandi verkefnum í Hafnarfirði. Einstaklingar og hópar fá tækifæri til að starfa í sumar við að sinna skapandi verkefnum og kynna þau fyrir bæjarbúum og gestum yfir sumartímann. Skapandi sumarstörf, sem rekin eru sem hluti af Vinnuskóla Hafnarfjarðar og Nýsköpunarseturs, er ætlað sem stökkpallur fyrir ungt listafólk til að þróa sig áfram í sinni list, þjálfa sig í að vinna sjálfstætt og koma listsköpun sinni á framfæri.
Umsækjendur þurfa að vera á aldrinum 18-25 ára. Við val á verkefnum verður meðal annars tekið tillit til raunhæfni og frumleika verkefnisins, fjárhagsáætlunar, fjölbreytni verkefna, kynjahlutfalli umsækjenda og gæði umsókna. Gerður verður samningur um fyrirkomulag verkefnis við viðkomandi umsækjendur sem valdir verða. Hægt er að fá aðstoð við skrif umsóknar hjá starfsmönnum Nýsköpunarseturs í gegnum netfangið [email protected].
Helstu verkefni og ábyrgð er að:
- Vinna eftir eigin framkvæmdar- og verkáætlun
- Starfsfólk sé virkt á samfélagsmiðlum og að kynna verkefnið
- Vera í samstarfi og samráði við aðra þátttakendur í Skapandi sumarstörfum
- Halda vinnudagbók og mæta á alla fundi sem starfsmenn Nýsköpunarseturs skipuleggja
- Koma fram á skipulögðum viðburðum á vegum Hafnarfjarðarbæjar líkt og 17. júní o.fl.
- Taka virkan þátt í uppskerudögum Skapandi sumarstarfa haustið 2025 eða með einum eða öðrum hætti sýna afrakstur og útkomu verkefnis að kostnaðarlausu fyrir bæjarbúa.
Senda þarf neðangreindar upplýsingar og fylgigögn með sem viðhengi með umsókn:
- Greinargóð lýsing á verkefninu, umfangi þess og markmiðum
- Tíma- og verkáætlun
- Fjárhagsáætlun
- Upplýsingar um alla aðstandendur verkefnisins og tilgreina einn tengilið verkefnisins
Umsóknarfrestur er til og með 31. mars 2025.
Athugið að aðeins er um laun að ræða en ekki önnur fjármögnun á verkefninu. Verkefni standa straum af öllum tilfallandi framleiðslukostnaði sjálf.
Laun eru samkvæmt kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga við Hlíf stéttarfélag.
Gerður verður samningur um fyrirkomulag verkefnis við viðkomandi umsækjendur sem valdir verða. Umsjónarmaður Vinnuskóla Hafnarfjarðar, forstöðumaður Nýsköpunarseturs og starfsmenn Nýsköpunarseturs sitja í valnefnd sem skilar niðurstöðum fyrir 15. apríl 2025.
Nánari upplýsingar um starfið veitir Bryndís Steina Friðgeirsdóttir, forstöðumaður Nýsköpunarseturs, í gegnum tölvupóstinn [email protected].
Heildartímafjöldi eru 208 tímar og gert ráð fyrir að verkefnið sé unnið í 7 vikur á tímabilinu júní-júlí.
Vakin er athygli á stefnu Hafnarfjarðarbæjar að jafna hlutfall kynjanna í störfum hjá bænum og að vinnustaðir bæjarins endurspegli fjölbreytileika samfélagsins.





































