

Sjúkraliði á legudeild geðrofssjúkdóma
Sjúkraliði óskast til starfa á legudeild geðrofssjúkdóma Landspítala við Hringbraut. Við sækjumst eftir metnaðarfullum sjúkraliða sem hefur áhuga á að starfa með fólki með geðrænar áskoranir, bæði í bráðaveikindum og endurhæfingu. Áhersla er lögð á notendamiðaða þjónustu og góðan starfsanda. Starfshlutfall er 80-100% og er starfið laust frá 15. desember 2025 eða eftir samkomulagi.
Legudeild geðrofssjúkdóma sinnir greiningu, meðferð og endurhæfingu fólks með geðrofssjúkdóma. Deildin er 16 rúma, 10 rými ætluð einstaklingum með bráð veikindi og 6 ætluð til endurhæfingar. Á deildinni er boðið upp á samtalsmeðferð, virkni, fræðslu, lyfjameðferð og hvatningu og stuðning við athafnir daglegs lífs. Markmið meðferðarvinnu er að auka lífsgæði og valdefla sjúklinga, draga úr hamlandi geðrofseinkennum og þjálfa upp bjargráð til að lifa með geðrofssjúkdóm. Spennandi vettvangur fyrir sjúkraliða sem hafa áhuga á að dýpka þekkingu sína í geðhjúkrun og endurhæfingu.
Unnið er á þrískiptum vöktum, morgun-, kvöld- og næturvöktum. Boðið er upp á einstaklingsmiðaða aðlögun, stuðning í starfi og starfsþróunarár fyrir sjúkraliða.
Íslenska




















































