Sjúkraliði á HNE-, lýta- og æðaskurðdeild
Við auglýsum eftir sjúkraliða til starfa á HNE-, lýta- og æðaskurðdeild í Fossvogi. Einstaklega góður starfsandi ríkir á deildinni, mikil teymisvinna og lögð er áhersla á að taka vel á móti nýju samstarfsfólki og veita góða einstaklingsmiðaða aðlögun. Starfshlutfall er 70% - 100%, vaktavinna og ráðið er í starfið sem fyrst eða eftir nánara samkomulagi.
Deildin er 18 rúma og sérhæfir sig í meðferð og hjúkrun háls-, nef- og eyrnasjúklinga sem og lýta- og æðasjúklinga. Sjúklingahópurinn er afar fjölbreyttur og gefast því góð tækifæri til starfsþróunar og að öðlast fjölþætta reynslu. Nýútskrifaðir sjúkraliðar eru velkomnir.
Vinnuvika starfsfólks í fullri vaktavinnu er nú 36 stundir og getur orðið minni eftir samsetningu vakta. Markmiðið er að stuðla að betri heilsu og öryggi starfsfólks og auka möguleika þess til að samþætta betur vinnu og einkalíf.