Sérkennsluráðgjafi leikskóla Kópavogsbæjar
Kópavogsbær auglýsir eftir sérkennsluráðgjafa fyrir leikskóla bæjarins. Í Kópavogi eru 21 leikskóli með u.þ.b. 2100 börn og um 700 starfsmenn í um 550 stöðugildum.
Kópavogsbær er barnvænt og heilsueflandi sveitarfélag þar sem leikskólarnir vinna að innleiðingu Barnasáttmálans í öllu sínu starfi. Starf leikskóla Kópavogs einkennist af faglegum metnaði þar sem lögð er áhersla á skapandi og ánægjulegt starfsumhverfi barna og starfsmanna.
Mikilvægt er að sérkennsluráðgjafi sé jákvæður og uppbyggjandi í samskiptum, hafi ríkan vilja til að ná árangri og brennandi áhuga á þjónustu í þágu farsældar barna. Sérkennsluráðgjafi hefur í samstarfi við verkefnastjóra skólaþjónustu, umsjón og eftirlit með stoðþjónustu í leikskólum Kópavogs og annast faglega ráðgjöf til leikskóla og foreldra/forráðamenn barna í leikskólunum. Hann stendur vörð um réttindi barna og stuðlar að því að barnið njóti ávallt bestu þjónustu sem möguleg er á hverjum tíma.
Helstu verkefni og ábyrgð
Sér um ráðgjöf, fræðslu og eftirfylgd vegna barna er njóta aðstoðar sérfræðinga skólaþjónustu og/eða stuðnings í leikskólum.
Styður við og veitir ráðgjöf til foreldra barna með stuðning.
Kemur að mati þroska og líðan barna í samræmi við beiðnir leikskóla og sér til þess að viðkomandi barni sé vísað í nánara mat ef þurfa þykir.
Vinnur náið með öðrum sérfræðingum sem koma að málum barns.
Styður við og veitir ráðgjöf við gerð einstaklingsáætlana með hliðsjón af greiningu í samvinnu við foreldra/forráðamenn barna og starfsmanna leikskóla.
Miðlar til starfsmanna leikskóla nýjungum varðandi skólaþjónustu og skipuleggur fræðslu.
Menntunar- og hæfniskröfur
Leikskólakennaramenntun og leyfisbréf kennara eða önnur uppeldismenntun.
Framhaldsmenntun (Diplóma að lágmarki).
Reynsla af leikskólastarfi.
Reynsla af sérkennslu í leikskóla.
Fagleg forysta, sýn og vilji til nýbreytni og þróunar í sérfræðiþjónustu.
Frumkvæði, lausnamiðuð hugsun og metnaður til að ná árangri í starfi.
Færni í mannlegum samskiptum, skipulagsfærni og vönduð vinnubrögð.
Færni til að tjá sig skipulega bæði í ræðu og riti.