Sérfræðilæknir í svæfinga- og gjörgæslulækningum
Lausar eru til umsóknar stöður sérfræðilækna á svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala. Reiknað er með vinnuframlagi á öllum einingum svæfinga- og gjörgæsludeildar Landspítala. Starfsemi deildarinnar er fjölbreytt og sinnum við svæfingum og deyfingum fyrir flestar sérgreinar skurðlækninga. Svæfingaþjónusta fyrir fæðandi konur og kvensjúkdóma er hluti af starfsemi svæfinga- og gjörgæsludeildar Landspítala við Hringbraut. Upphaf starfa er samkomulagsatriði. Starfshlutfall 100% og vinnufyrirkomulag er dagvinna með staðarvöktum.
Fyrir utan svæfingar á skurðstofugöngum í Fossvogi og við Hringbraut er svæft alla daga vikunnar á hjartaþræðingarstofum, æðaþræðingastofu, speglunardeild og röntgendeild. Gjörgæsludeildirnar í Fossvogi og við Hringbraut sinna bæði gjörgæslulækningum barna og fullorðinna. Þá sinna læknar með sérhæfingu í verkjameðferð sjúklingum með bráða og langvinna verki á vegum Verkjateymis Landspítala. Á innskriftarmiðstöð sinna svæfingalæknar undirbúningi sjúklinga fyrir aðgerð. Svæfingalæknar manna þyrlusveit Landhelgisgæslunnar í samstarfi við bráðalækna en það er valkvæð viðbót við starfið á svæfinga- og gjörgæsludeild .
Sérfræðilæknum sem ráðnir verða stendur til boða þátttaka í framhaldsmenntunarnámskeiðum Scandinavian Society of Anaesthesiology and Intensive Care Medicine (SSAI).
Á deildinni starfa rúmlega 40 sérfræðilæknar og um 20 sérnámslæknar í þverfaglegu teymi og í nánu samstarfi við aðrar fagstéttir spítalans.