Ný spennandi staða hjúkrunardeildarstjóra á vöknun
Við fyrirhugaða sameiningu vöknunar við Hringbraut og vöknunar í Fossvogi er laust til umsóknar nýtt starf hjúkrunardeildarstjóra á vöknun Landspítala. Starfið er dagvinnustarf, 100% starfshlutfall og veitist starfið frá 1. janúar 2025 eða eftir samkomulagi. Næsti yfirmaður er forstöðuhjúkrunarfræðingur skurðstofa og gjörgæslna.
Við leitum eftir kraftmiklum og framfarasinnuðum leiðtoga til að leiða sameiningu og efla starfsemi tveggja vöknunardeilda á Landspítala. Deildarstjóri þarf að búa yfir faglegri hæfni og hafa þekkingu og áhuga á stjórnun, rekstri og teymisvinnu. Starfið er ábyrgðarmikið og krefjandi og reynir á frumkvæði, stefnumótandi hugsun og krefst góðrar samskiptihæfni og áhuga á að leiða breytingar og eflingu liðsheildar. Deildarstjóri vöknunar leiðir ákvarðanatökur um skipulag hjúkrunar og verklag á vöknunardeild sem og innleiðingu nýjunga í hjúkrun er stuðla að auknum gæðum hjúkrunar, gagnreyndum starfsháttum og öryggi sjúklinga. Deildarstjórinn er virkur þátttakandi í stjórnendateymi sviðs í ýmsum verkefnum tengdum stjórnun, rekstri, þjónustu og mannauði. Starfið felur í sér mikla teymisvinnu þar sem unnið er í góðu samstarfi við þverfagleg teymi og fjölmargt annað fagfólk spítalans.
Vöknun heyrir undir skurðlækninga-, skurðstofu- og gjörgæsluþjónustu. Á deildinni starfa um 40 starfsmenn, hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar við fjölbreytt og krefjandi verkefni, í nánu samstarfi við fagfólk í öðrum sérgreinum og á öðrum deildum spítalans. Deildin þjónar börnum og fullorðnum sem þarfnast hjúkrunar og eftirlits á vöknun eftir inngrip og skurðaðgerðir. Deildin er opin allan sólarhringinn alla daga ársins. Vinnutímaskipulag deildar er vaktavinna og unnið er á þrískiptum vöktum.