Nám í flugumferðarstjórn
Opnað hefur verið fyrir umsóknir fyrir nám í flugumferðarstjórn sem fyrirhugað er að hefjist haustið 2025.
Flugumferðarstjórar stýra flugumferð á flugvöllum á Íslandi og í íslenska flugstjórnarsvæðinu sem er eitt það stærsta í heiminum. Íslenska flugleiðsöguþjónustan er stærsti starfsvettvangur flugumferðarstjóra á Íslandi.
Hæfir umsækjendur verða boðaðir í inntökupróf. Vakin er athygli á því að reglum um inntökupróf hjá Isavia ANS hefur verið breytt. Eingöngu má sitja inntökupróf fyrir nám í flugumferðarstjórn þrisvar. Þeir sem fóru í inntökupróf 2023 og 2024 þurfa ekki að fara í gegnum allt inntökuferlið aftur.
Nám í flugumferðarstjórn tekur að jafnaði 2 ár, nemar greiða ekki skólagjöld og fá mánaðarlegan námsstyrk þegar seinni hluti námsins (starfsþjálfun) hefst. Þó fullnægjandi árangur náist í námi er það ekki trygging fyrir starfi hjá Isavia að námi loknu. Námið er lánshæft hjá Menntasjóði námsmanna.
Sjá nánar á: https://ans.isavia.is/nam-i-flugumferdarstjorn
-
Stúdentspróf eða sambærileg menntun
-
Æskilegast er að umsækjendur séu milli 18 – 35 ára
-
Góð tök á íslensku og ensku í tali og riti. Viðkomandi þarf að ná að lágmarki CEFRL stigi B2
-
Umsækjendur þurfa að standast heilbrigðisskoðun og skimun fyrir geðvirkum efnum skv. reglugerðarkröfum um flugumferðarstjóra
-
Með umsókn skal fylgja afrit af prófskírteini, einkunnum úr námi ásamt ferilskrá.