

Lundarsel-Pálmholt:Leikskólakennari eða önnur háskólamenntun
Leikskólinn Lundarsel-Pálmholt á Akureyri óskar eftir að ráða leikskólakennara eða starfsmenn með aðra háskólamenntun (BA, BS eða B.Ed) sem nýtist í starfi í 80%-100% stöður. Einnig getur verið möguleiki á minna starfshlutfalli. Vinnutími í 100% starfi er frá kl. 8-16. Unnið er eftir fyrirkomulagi um Betri vinnutíma og er vinnufyrirkomulagið fyrir 100% starf 36 klukkustundir á viku.
Um er að ræða ótímabundnar stöður og er æskilegt er að viðkomandi hefji störf sem allra fyrst eða eftir nánara samkomulagi.
Í Lundarseli-Pálmholti er leitast við að búa börnunum lærdómsríkt umhverfi sem hvetur til sköpunar, umræðna og rannsókna. Við vinnum út frá áhuga barnanna og undrun þeirra á tilverunni. Við lítum á leikinn sem hornstein leikskólastarfsins og leggjum því mikla áherslu á að leikgleði barnanna fái notið sín í daglegu lífi leikskólans. Til að skapa gott andrúmsloft, tryggja öryggi og velferð allra í leikskólanum er unnið með SMT skólafærni. Einkunnaorð skólans eru: Glaðir spekingar sem leika og læra saman.
Viltu vera vera með okkur í liði og leggja þitt af mörkum?
Leikskólakennari starfar samkvæmt lögum og reglugerð um leikskóla, öðrum lögum er við eiga, aðalnámskrá leikskóla, kjarasamningum og mannauðs- og skólastefnu Akureyrarbæjar.
- Vinna að uppeldi og menntun barnanna. Fylgjast vel með velferð þeirra og hlúa að þeim andlega og líkamlega í samræmi við eðli og þarfir hvers og eins svo að þau fái notið sín sem einstaklingar.
- Taka þátt í gerð skólanámskrár, mati á starfsemi leikskólans og þróunarverkefnum undir stjórn leikskólastjóra.
- Taka þátt í skipulagningu faglegs starfs deildarinnar undir stjórn deildarstjóra.
- Vinna í nánu samstarfi við foreldra/forráðamenn barnanna. Sitja fundi, sem haldnir eru á vegum leikskólans.
- Umsækjendur þurfa að hafa lokið leikskólakennaranámi eða annarri háskólamenntun (BA, BS eða B.Ed) sem nýtist í starfi.
- Óskað er eftir jákvæðum, sjálfstæðum, ábyrgum og sveigjanlegum einstaklingi.
- Mikilvægt er að viðkomandi eigi mjög auðvelt með mannleg samskipti, geti lesið í umhverfi sitt, sýni frumkvæði í starfi og sé tilbúinn til að takast á við skemmtilegt starf með börnum.
- Reynsla af starfi í leikskóla er kostur.
- Gott vald á íslensku, talaðri og ritaðri.
- Góð tölvufærni.
- Gerð er krafa um vammleysi, s.s. að vera með gott orðspor og að framkoma og athafnir á vinnustað og utan hans samrýmist starfinu.











