

Líffræðingur eða sameindalíffræðingur á sameindameinafræðideild
Við sækjumst eftir metnaðarfullum líffræðingi sem hefur áhuga á að vinna við þjónustugreiningar á krabbameinsæxlum og öðrum sýnum sem byggja á aðferðum sameindalíffræðinnar. Upphaf ráðningar er samkomulagsatriði en æskilegt að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst.
Rannsóknastofa í sameindameinafræði er hluti af meinafræðideild og starfa þar aðallega lífeindafræðingar, meinafræðingar og líffræðingar, alls um 40 einstaklingar. Á rannsóknastofunni okkar sjáum við um klínískar þjónusturannsóknir á æxlum sem byggja á sameindalíffræðilegum aðferðum. Niðurstöður rannsóknanna eru nýttar til sjúkdómsgreininga og ákvarðanatöku um meðferð sjúklinga. Einnig eru unnar rannsóknir á blóðsýnum við greiningar á faðerni.
Auk fjölbreyttra þjónusturannsókna eru stundaðar vísindarannsóknir á tilurð og framvindu krabbameina og áhrif stökkbreytinga á meðferð sjúklinga.
Í leit okkar að nýjum liðsmanni leggjum við því áherslu á bakgrunn í sameindalíffræði og reynslu og áhuga á krabbameinsfræðum og vísindarannsóknum.


















































