

Kennarar - Leikskólinn Víðivellir
Leikskólinn Víðivellir óskar eftir að ráða áhugasama og metnaðarfulla kennara í fullt starf.
Fáist ekki starfsmaður með leyfisbréf til kennslu, kemur til greina að ráða háskólamenntaðan einstakling eða einstakling með reynslu af starfi með börnum, sbr. lög nr. 95/2019. Við hvetjum áhugasama til að sækja um.
Leikskólinn Víðivellir er fyrsti leikskólinn sem Hafnarfjarðarbær byggir og rekur. Leikskólinn tók til starfa 28. febrúar 1977. Víðivellir er fjögurra deilda leikskóli. Í upphafi var ein af deildunum sérdeild fyrir fötluð börn en árið 1993 var hún lögð niður þegar skóli án aðgreiningar var tekið upp og áhersla á blöndun fatlaðra og ófatlaðra barna. Hjá okkur eru um 100 börn með breytilega dvalartíma.
Hjá okkur starfar áhugasamt og skemmtilegt fólk, leikskólakennarar, þroskaþjálfar, starfsmenn með aðra háskólamenntun og leiðbeinendur. Lögð er sérstök áhersla á öfluga stoðþjónustu við nemendur með sérþarfir. Við erum í nánu samstarfi við sjúkraþjálfara, iðjuþjálfa, talmeinafræðinga og aðra sérfræðinga. Við leggjum mikið upp úr því að hvert barn fái að njóta sín sem einstaklingur og við notum tækifæri hvers dags til að kenna börnunum á allar hliðar daglegs lífs.
Leikskólar Hafnarfjarðar hafa innleitt betri vinnutíma sem miðast við 36 stunda vinnuviku fyrir allt starfsfólk. Starfsfólk í Félagi leikskólakennara og Þroskaþjálfafélaginu hefur kosið fyrirkomulag sem felur í sér að starfsár þeirra er sambærilegt starfsári grunnskólakennara. Þessir starfsmenn taka því út vinnutímastyttingu í kringum jól og áramót, þegar vetrarfrí er í grunnskólum, í dymbilviku og með lengri fjarveru á sumrin.




































