

Iðjuþjálfar - Fjölbreytt störf í geðþjónustu
Óskað er eftir iðjuþjálfum til starfa í geðþjónustu Landspítala. Starfshlutfall er 80-100% eða eftir samkomulagi.
Viltu vinna með skemmtilegu fólki þar sem þú færð tækifæri til að öðlast breiða þekkingu innan fagsins? Viltu vera hluti af liðsheild sem starfar í krefjandi og skemmtilegu umhverfi? Þá er tækifærði hér! Lögð er rík áhersla á að taka vel á móti starfsmönnum og veita þeim góða aðlögun.
Iðjuþjálfar í geðþjónustu Landspítala vinna eftir hugmyndafræði Líkansins um iðju mannsins (MOHO). Þeir vinna í ýmsum sérhæfðum teymum s.s. þunglyndis- og kvíðateymi, átröskunarteymi, áfallateymi, geðrofsteymi og á sólarhringsdeildum s.s. endurhæfingargeðdeild, réttar- og öryggisgeðdeild og meðferðargeðdeild Laugarási.
Geðþjónustan leggur áherslu á að stuðla að auknum lífsgæðum einstaklinga og hvetur til ábyrgðar á eigin hegðun og lífsstíl. Meðferðin byggir m.a. á fræðslu og stuðningi til að auka virkni innan sem utan spítalans.
Æskilegt er að umsækjendur geti hafið störf sem fyrst eða eftir samkomulagi.
Vinnuvika starfsfólks í fullri dagvinnu er nú 36 stundir. Markmiðið er að stuðla að betri heilsu og öryggi starfsfólks og auka möguleika þess til að samþætta betur vinnu og einkalíf.















































