

Hjúkrunarfræðingur - Spennandi starf í geðrofs- og samfélagsgeðteymi
Við bjóðum upp á frábæran starfsanda og fjölskylduvænan vinnutíma.
Metnaðarfullur hjúkrunarfræðingur óskast til starfa í geðrofs- og samfélagsgeðteymi á Landspítala. Starfsumhverfið er spennandi, krefjandi og skemmtilegt og vinnutíminn fjölskylduvænn. Um dagvinnu er að að ræða, en sé óskað eftir vöktum er það möguleiki í samstarfi við legudeildir geðþjónustu. Í teyminu starfa um 25 einstaklingar og rík áhersla er á þverfaglega teymisvinnu. Starfsaðlögun er markviss og einstaklingshæfð og miklir möguleikar eru til starfsþróunar og sérhæfingar.
Meginverkefni teymisins er að veita fólki sem greinst hefur með alvarlega geðsjúkdóma og aðstandendum þeirra þverfaglega og einstaklingsmiðaða þjónustu. Þjónustan byggir á batamiðaðri hugmyndafræði og skaðaminnkandi nálgun. Þjónustan er veitt á göngudeild Klepps sem og í nærumhverfi þjónustuþegans. Markmið meðferðarinnar er að stuðla að bata, rjúfa félagslega einangrun, auka virkni og lífsgæði í daglegu lífi. Hjúkrunarfræðingur í teymi sinnir einnig málastjórn. Hlutverk málastjóra er fjölbreytt og felst meðal annars í mati á geðrænum einkennum og mati á einstaklingsbundnum þörfum. Málastjóri sinnir meðferð og eftirfylgd, þróun meðferðaráætlana, vöktun og mati á árangri þjónustunnar. Málastjóri er einnig í samskiptum við aðstandendur.
Starfsemin er í stöðugri þróun og lögð er áhersla á virkt umbótastarf og hjúkrunarfræðingar gegna lykilhlutverki í mótun framtíðarsýnar, eflingu hjúkrunar, meðferðar og endurhæfingu fyrir einstaklinga með alvarlega geðsjúkdóma. Hjúkrunarfræðingi með áhuga á heildrænni nálgun og með reynslu af því að vinna með lífsstílstengda sjúkdóma gæti fundist starfið spennandi, þar sem mikil nýsköpun á sér stað í teyminu hvað varðar þróun á sérhæfðri lífsstílsíhlutun fyrir þjónustuþega teymis. Í teyminu standa til boða mikil tækifæri til vaxtar í starfi með markvissri handleiðslu og faglegum stuðningi.
Margir möguleikar eru á starfsþróun fyrir hjúkrunarfræðinga í geðþjónustu og fyrir áhugasama sem vilja sérhæfa sig í faginu.
- Þátttaka í þverfaglegu teymi, sinnir málastjórn, klínískri meðferð þjónustuþega og aðstandendastuðningi
- Vaktstjórn og lyfjagjafir ásamt öðrum hjúkrunartengdum verkefnum
- Heldur utan um skipulagningu og framkvæmd verkefna og vinnur samkvæmt stöðluðum verkferlum
- Tekur þátt í umbótastarfi og þróun þjónustu
- Þjálfun og kennsla hjúkrunarnema
- Starfar samkvæmt öryggisverkferlum deildar
- Stuðlar að góðum starfsanda og menningu sálræns öryggis
- Íslenskt hjúkrunarleyfi
- Faglegur metnaður, jákvætt hugarfar og frumkvæði
- Einlægur áhugi á geðhjúkrun, reynsla af starfi í geðþjónustu er kostur
- Framúrskarandi færni í samskiptum og teymisvinnu
- Stundvísi, áreiðanleiki og öguð vinnubrögð
- Færni til að skipuleggja og forgangsraða verkefnum
- Góð íslenskukunnátta, í mæltu og rituðu máli
- Góð almenn tölvukunnátta og geta til að læra nýjungar
- Kunnátta í tungumáli stórra samfélagshópa á Íslandi sem eiga íslensku ekki að móðurmáli er kostur






























































