Hjúkrunarfræðingur - spennandi starf á göngudeild réttar- og öryggisgeðþjónustu
Ert þú metnaðarfullur, skapandi og jákvæður hjúkrunarfræðingur með áhuga á geðheilbrigðismálum?
Göngudeild réttar- og öryggisgeðdeilda Landspítala (RÖG) auglýsir laust til umsóknar starf hjúkrunarfræðings. Starfsumhverfið er spennandi, krefjandi og skemmtilegt, vinnutíminn fjölskylduvænn og fjölmörg tækifæri til faglegrar þróunar. Um er að ræða 70-100% starf í dagvinnu. Sé óskað eftir vöktum er möguleiki á því samhliða á legudeild RÖG. Starfið er laust frá 15. desember 2024 eða eftir nánara samkomulagi.
Göngudeild RÖG sinnir sérhæfðri meðferð og eftirfylgd sjúklinga sem hafa útskrifast af réttargeðdeild og öryggisgeðdeild. Meginverkefni teymisins er að veita einstaklingsmiðaða og þverfaglega þjónustu, stuðla að bata og auka lífsgæði í daglegu lífi. Í teyminu starfa auk hjúkrunarfræðings geðlæknar, sálfræðingar og félagsráðgjafi.
Fyrirhugað er að færa þjónustuna sem nú þegar er til staðar yfir í samfélagsmiðaða þjónustu þar sem áhersla verður lögð á málastjórn og eflingu þverfaglegrar teymisvinnu. Að auki er fyrirhugað að þróa og sinna þjónustu við fanga með alvarlega geðsjúkdóma. Næstu misseri verður því ráðist í umfangsmikla umbótavinnu á allri starfsemi göngudeildar RÖG þar sem hjúkrunarfræðingar gegna lykilhlutverki í mótun framtíðarsýnar og eflingu hjúkrunar.
Fjölmörg tækifæri eru til starfsþróunar í geðþjónustunni en boðið er upp á sérhæft starfsþróunarár fyrir hjúkrunarfræðinga sem felur í sér handleiðslu frá reynslumiklum geðhjúkrunarfræðingum ásamt fræðslu.