Hjúkrunarfræðingur á Brjóstamiðstöð
Hjúkrunarfræðingur óskast til starfa á göngudeild Brjóstamiðstöðvar Landspítala.
Brjóstamiðstöðin sér um skimun fyrir brjóstakrabbameini á landsvísu og veitir heildræna þjónustu fyrir einstaklinga með sjúkdóma í brjóstum og einstaklinga með auknar líkur á brjóstakrabbameini. Starfsemin byggir á öflugri, þverfaglegri teymisvinnu lækna, hjúkrunarfræðinga, geislafræðinga og fleiri starfsstétta. Starfsemin er mjög fjölbreytt en þar fer meðal annars fram brjóstaskimun og sérskoðanir, greining sjúkdóma og ákvörðun meðferða, undirbúningur og eftirlit eftir skurðaðgerðir, krabbameinslyfjameðferðir og geislameðferðir. Einnig er þar starfandi erfðamóttaka fyrir einstaklinga með genabreytingu sem felur í sér auknar líkur á brjóstakrabbameini auk eftirlits og mats með tilliti til áhættuminnkandi aðgerða. Ráðgjöf, fræðsla og stuðningur skipar stóran sess í starfsemi Brjóstamiðstöðvar.
Á göngudeild Brjóstamiðstöðvar starfar öflugt teymi reyndra hjúkrunarfræðinga sem gegna lykilhlutverki í þjónustunni sem tengiliðir við skjólstæðinga deildarinnar. Hjúkrunarteymið leggur metnað í að veita faglega og örugga þjónustu í samstarfi við aðrar starfsstéttir og taka virkan þátt í stöðugum umbótum og þróun þjónustu fyrir skjólstæðingahópinn. Mikil tækifæri gefast því til starfsþróunar og þátttöku í þróun þjónustu.
Í boði er einstaklingshæfð aðlögun með reyndum hjúkrunarfræðingum. Viðkomandi þarf að búa yfir samskiptahæfni, hafa áhuga á þróun þjónustu, bættum ferlum og eiga auðvelt með að starfa í teymi.
Vinnuvika starfsfólks í fullri dagvinnu er nú 36 stundir. Markmiðið er að stuðla að betri heilsu og öryggi starfsfólks og auka möguleika þess til að samþætta betur vinnu og einkalíf.
Starfshlutfall er 80-100%, unnið er í dagvinnu og er upphaf starfs samkomulagsatriði.
Áhugasamir eru hvattir til að hafa samband við Kristrúnu deildarstjóra.