

Hjúkrunardeildarstjóri speglunardeildar
Við leitum eftir öflugum leiðtoga til að leiða speglunardeild Landspítala við Hringbraut. Hjúkrunardeildarstjóri þarf að búa yfir afburða hæfni í samskiptum og stuðla að teymisvinnu innan deildar, við aðra stjórnendur og samstarfsaðila. Farsæl reynsla af stjórnun og rekstri er æskileg en starfið er unnið í nánu samstarfi við forstöðuhjúkrunarfræðing, yfirlækna og annað starfsfólk.
Speglunareiningin sinnir bæði almennum speglunum en er einnig sú sérhæfðasta á landinu og sinnir því sjúklingum alls staðar að. Á deildinni starfar um 30 manna hópur samhentra starfsmanna, í nánu samstarfi við marga sérfræðinga Landspítala. Starfsstöðvar eru tvær, við Hringbraut þar sem stærri hluti speglana fer fram og í Fossvogi. Deildin er í sókn á mörgum sviðum. Þjónusta við sjúklinga hefur verið bætt og aukin, mikil og góð samvinna er við aðra starfsemi spítalans og hafa svæfingar við flóknari inngrip aukist mikið. Það hefur verið forsenda fyrir því að nýjar tegundir inngripa eru í boði og eru frekari nýjungar og framþróun á stefnuskránni.
Hjúkrunardeildarstjóri er yfirmaður hjúkrunar, stjórnar daglegum rekstri og er leiðandi um fagleg málefni deildar. Ábyrgðasviðið er þríþætt, þ.e. fagleg ábyrgð, starfsmannaábyrgð og fjárhagsleg ábyrgð. Næsti yfirmaður er forstöðuhjúkrunarfræðingur ferildeilda. Starfshlutfall er 100% og veitist starfið frá 1. apríl 2025 eða eftir nánara samkomulagi.






























































