

Hjúkrunardeildarstjóri á skurðstofur á Hringbraut
Við leitum eftir öflugum leiðtoga með faglega hæfni og farsæla reynslu af stjórnun, rekstri og eflingu mannauðs til að leiða starfsemi skurðstofa á Hringbraut. Hjúkrunardeildarstjóri þarf að búa yfir afburða hæfni í samskiptum og stuðla að teymisvinnu innan deildar, við aðra stjórnendur og samstarfsaðila. Deildarstjóri er yfirmaður hjúkrunar á deildinni, stjórnar daglegum rekstri og er leiðandi um hjúkrunarfræðileg málefni.
Hjúkrunardeildarstjóri er leiðtogi og hefur þríþætta ábyrgð sem stjórnandi, þ.e.a.s. faglega ábyrgð, starfsmannaábyrgð og fjárhagslega ábyrgð. Næsti yfirmaður er framkvæmdastjóri skurðlækningasviðs. Starfshlutfall er 100% og veitist starfið frá 1. september 2023 eða eftir samkomulagi.
Á skurðstofum Landspítala við Hringbraut eru 11 skurðstofur sem þjóna 7 sérgreinum og árlega eru framkvæmdar þar um 10 þúsund aðgerðir.
Á deildinni starfa um 90 manns; hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, sótthreinsitæknar, skrifstofufólk og sérhæft starfsfólk við fjölbreytt og krefjandi verkefni, sem unnin eru í nánu samstarfi við fagfólk í öðrum sérgreinum. Gagnreynd þekking, viðurkenndir verkferlar, öryggi sjúklinga og teymisvinna eru höfð í fyrirrúmi á báðum starfseiningum.
















































