

Embætti forstöðumanns Náttúruminjasafns Íslands
Náttúruminjasafn Íslands er höfuðsafn á sviði náttúrufræða. Hlutverk Náttúruminjasafns Íslands er að varpa ljósi á náttúru Íslands, náttúrusögu landsins, nýtingu náttúruauðlinda og náttúruvernd, auk þess að varpa ljósi á samspil manns og náttúru og á náttúru landsins í alþjóðlegu samhengi.
Um frekara hlutverk og starfsemi safnsins vísast til ákvæða laga um Náttúruminjasafn Íslands, nr. 35/2007.
Náttúruminjasafn Íslands stendur nú á tímamótum en fyrir liggur að safnið mun á næstu misserum hefja starfsemi í nýju húsnæði að Safnatröð á Seltjarnarnesi þar sem stefnt er að opnun nýrrar grunnsýningar. Að auki liggur fyrir að menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneyti og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti kanna nú möguleika á sameiningu Náttúruminjasafns Íslands og Náttúrufræðistofnunar. Talsverð skörun er á starfsemi þessara tveggja stofnana og því mikil tækifæri til rekstrarlegrar og faglegrar samlegðar, ekki síst með aukinni samþættingu rannsókna á náttúru Íslands, vöktunar og miðlunar upplýsinga til samfélagsins. Nýr safnstjóri Náttúruminjasafnsins þarf að vera tilbúinn til að leiða safnið í gegnum fyrirséðar breytingar á starfsemi og umbóta í rekstri þess.
Safnstjóri leiðir starfsemi safnsins og annast daglegan rekstur og stjórn þess, undirbýr starfs- og fjárhagsáætlun og stýrir mannauði. Safnstjóri er ábyrgur gagnvart ráðherra fyrir fjárhagslegum rekstri og starfsemi safnsins. Að auki þarf nýr safnstjóri að leiða safnið í gegnum fyrirséðar breytingar á rekstri og mögulega sameiningu. Í samræmi við 1. mgr. 5. gr. laga nr. 35/2007, um Náttúruminjasafn Íslands, skulu umsækjendur hafa háskólamenntun og staðgóða þekkingu á starfssviði safnsins. Gerð er krafa um reynslu af rekstri og stjórnun, leiðtogahæfni og færni í mannlegum samskiptum. Reynsla úr umhverfi opinbera fjármála er æskileg sem og reynsla af stjórnun breytinga. Þekking og reynsla af opinberri stjórnsýslu er skilyrði. Við mat á umsækjendum er horft til kjörmyndar stjórnenda út frá stjórnendastefnu ríkisins.
Nánari upplýsingar veitir
Sigrún Brynja Einarsdóttir
Ráðuneytisstjóri
Tölvupóstur: [email protected]
Sími: 5459600
Íslenska