Aðstoðardeildarstjóri hjúkrunar óskast á Laugarásinn meðferðargeðdeild
Laugarásinn meðferðargeðdeild auglýsir starf aðstoðardeildarstjóra laust til umsóknar. Leitað er eftir öflugum liðsmanni í fjölbreytt, krefjandi og skapandi starf á góðum vinnustað.
Laugarásinn er sérhæfð meðferðargeðdeild fyrir einstaklinga á aldrinum 18-35 ára sem hafa nýlega greinst með geðrofssjúkdóm. Deildin skiptist í dagdeild og legudeild og sinnir um 100 einstaklingum hverju sinni. Starfsemi Laugarássins er í stöðugri þróun og er áhersla lögð á einstaklingsmiðaða þjónustu og virkt samstarf við aðstandendur. Á deildinni starfa um 40 manns og einkennist samstarfið af þverfaglegri nálgun, krefjandi greiningarvinnu og góðum starfsanda. Á deildinni er sérstök áhersla lögð á starfsþróun, m.a. fær starfsfólk þjálfun og handleiðslu í áhugahvetjandi samtalstækni og grunnþáttum hugrænnar atferlismeðferðar. Einnig er vikuleg starfsmannafræðsla og handleiðsla. Mikið er lagt upp úr virku umbótastarfi og lögð er áhersla á virka þátttöku hjúkrunarfræðinga og annarra fagstétta þegar kemur að því að þróa og bæta þjónustuna.
Starfshlutfall er 100% og er fyrst og fremst um dagvinnu að ræða, ásamt því að bakvaktir tilheyra starfinu eftir sex mánaða reynslutíma. Starfið er laust frá 1. mars 2025 eða eftir samkomulagi. Áhugasamir eru hvattir til að hafa samband við Lilju Dögg, hjúkrunardeildarstjóra.