

Aðstoðardeildarstjóri hjúkrunar á hjarta-, lungna- og augnskurðdeild
Laust er til umsóknar starf aðstoðardeildarstjóra hjúkrunar á hjarta-, lungna- og augnskurðdeild 12G á Landspítala við Hringbraut. Við leitum að metnaðarfullum hjúkrunarfræðingi með brennandi áhuga á hjúkrun brjóstholssjúklinga, stjórnun, ásamt gæða- og umbótastarfi.
Aðstoðardeildarstjóri starfar náið með deildarstjóra og fylgir eftir ákvörðunum um skipulag hjúkrunar og verklag á deild sem og innleiðingu nýjunga í hjúkrun er stuðla að auknum gæðum hjúkrunar, gagnreyndum starfsháttum og öryggi sjúklinga. Mikið er lagt upp úr þverfaglegri teymisvinnu. Um er að ræða vaktavinnu í 100% starfshlutfalli en að mestu morgunvaktir. Starfið er laust frá 16. október 2023.
Hjarta-, lungna- og augnskurðdeild er 14 rúma legudeild sem tilheyrir hjarta-, æða- og krabbameinssviði og er staðsett á 2. hæð á Landspítala við Hringbraut. Deildin er ætluð sjúklingum sem fara í hjarta-, lungna- og/ eða augnaðgerðir ásamt því leggur deildin sig fram við að hjálpa öðrum sérgreinum eftir þörfum á degi hverjum. Áskoranirnar eru margar og fjölbreyttar.
Á deildinni starfar áhugasamur hópur ýmissa starfstétta s.s. lækna, hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða, ritara og sérhæfðra starfsmanna, auk annarra stoðstétta sem koma eftir þörfum s.s. sjúkraþjálfarar og iðjuþjálfar. Á deildinni er lögð áhersla á öryggi sjúklinga og starfsfólks, samvinnu teyma og stöðugar umbætur. Við leggjum áherslu á að taka vel á móti nýju starfsfólki og veita góða og markvissa aðlögun.





























































