Aðstoðardeildarstjóri hjúkrunar á endurhæfingardeild Grensás
Starf aðstoðardeildarstjóra á endurhæfingadeild Landspítala er laust til umsóknar.
Endurhæfingardeild Grensás veitir öfluga endurhæfingu fyrir fólk sem lent hefur í alvarlegum veikindum, slysum eða færniskerðingu og þarfnast sérhæfðrar meðferðar. Á deildinni er fyrirhuguð mikil uppbygging á næstu árum með tilkomu glæsilegrar nýbyggingar. Öll aðstaða í nýju byggingunni verður einstök með fleiri einbýlum fyrir sjúklinga, framúrskarandi þjálfunaraðstöðu og kaffihúsi. Við leitum því að jákvæðum hjúkrunarfræðingi sem brennur fyrir endurhæfingu og uppbyggingu faglegs starfs í nýju og nútímalegu starfsumhverfi. Á deildinni starfar glaðlyndur, samhentur og metnaðarfullur hópur sem brennur fyrir því að veita sjúklingum og aðstandendum afburðagóða þjónustu. Góður starfsandi er ríkjandi sem einkennist af vinnugleði og metnaði.
Aðstoðardeildarstjóri starfar náið með deildarstjóra og fylgir eftir ákvörðunum um skipulag hjúkrunar og verklag á deild sem og innleiðingu nýjunga í hjúkrun er stuðla að auknum gæðum hjúkrunar, gagnreyndum starfsháttum og öryggi sjúklinga.
Starfið er laust nú þegar eða eftir nánara samkomulagi.
Vinnuvika starfsfólks í fullri vaktavinnu er nú 36 stundir og getur orðið minni eftir samsetningu vakta. Markmiðið er að stuðla að betri heilsu og öryggi starfsfólks og auka möguleika þess til að samþætta betur vinnu og einkalíf.