

Aðstoðardeildarstjóri á barnadeild - Barnaspítala Hringsins
Við leitum eftir metnaðarfullum hjúkrunarfræðingi með brennandi áhuga á hjúkrun barna og fjölskyldna, stjórnun, gæða- og umbótastarfi, í starf aðstoðardeildarstjóra.
Barnadeild og Rjóður sameinuðust í eina deild þann 1.október síðastliðinn. Á sameinaðri deilda starfa þrír aðstoðardeildarstjórar sem vinna náið saman í teymi með hjúkrunardeildarstjóra. Helstu verkefni nýs aðstoðardeildarstjóra munu snúa að starfssemi barnadeildar 22ED.
Starfið er laust frá 1. október 2025 eða eftir samkomulagi. Um er að ræða starf í dagvinnu að mestu og er starfshlutfall 100%.
Barnadeild og Rjóður sinna breiðum skjólstæðingahópi barna frá fæðingu að 18 ára aldri og fjölskyldum þeirra. Þar er veitt fjölbreytt heilbrigðisþjónusta með hugmyndafræði fjölskylduhjúkrunar að leiðarljósi. Barnadeildin er 21 rúma legudeild og Rjóður sinnir hvíldarinnlögnum og endurhæfingu.
Aðstoðardeildarstjóri starfar náið með stjórendateymi og fylgir eftir ákvörðunum um skipulag hjúkrunar og verklag á deild sem og innleiðingu nýjunga í hjúkrun er stuðla að auknum gæðum hjúkrunar, gagnreyndum starfsháttum og öryggi sjúklinga.
Vinnuvika starfsfólks í fullri dagvinnu er 36 stundir. Markmiðið er að stuðla að betri heilsu og öryggi starfsfólks og auka möguleika þess til að samþætta betur vinnu og einkalíf.


















































