

Verkefnastjóri fyrir Eyvöru - hæfnisetur í netöryggi
Eyvör NCC-IS er hæfnisetur í netöryggi, áður nefnt samstarfsvettvangur fræðslu, menntunar og rannsókna á sviði netöryggis á Íslandi. Markmið samstarfsins er að efla netöryggisgetu á landsvísu og styðja við íslenskt netöryggissamfélag sem og að tryggja öflugt Evrópusamstarf á sviði netöryggismála. Fjarskiptastofa tók nýlega við forsvari verkefnisins hérlendis.
Fjarskiptastofa leitar að öflugum einstaklingi til að leiða og samræma starf stofnunarinnar varðandi Eyvör hæfnisetur. Mikilvægt er að viðkomandi hafi reynslu af verkefnastjórnun, mannleg samskipti séu framúrskarandi og búi yfir skilningi á netöryggi.
Samskipti við hagaðila, þ.m.t. stjórnvöld, Rannís og aðra varðandi starfssvið Eyvarar
Fylgja eftir verkefnum sem hafa hlotið styrk á vegum Eyvarar og tryggja að viðkomandi uppfylli tímanlega þær kröfur sem ákvæði styrkveitingarinnar og gildandi úthlutunarreglur kveða á um þar með talið sérstaklega um allar fjárhagslegar skuldbindingar
- Vinna með viðeigandi aðilum til að undirbúa styrkveitingar á vegum Eyvarar
- Samstarf við háskólasamfélagið og stuðla að þekkingaryfirfærslu verkefna
- Aðstoð við skipulagningu og fjármögnun innri þróunarverkefna Fjarskiptastofu
- Þátttaka í skipulagi atburða er lúta að starfsemi Eyvarar í samstarfi við innri og ytri aðila
- Þátttaka í innlendu og alþjóðlegu samstarfi á sviði Eyvarar eftir því sem við á
- Háskólamenntun sem nýtist í starfi
- Reynsla af verkefnastjórnun er nauðsynleg
- Skilningur á netöryggismálum er æskilegur
- Reynsla af erlendum samskipum er æskileg
- Hæfni til þess að starfa sjálfstætt og hafa frumkvæði í starfi er nauðsynleg
- Hæfni til þess að taka þátt í hópavinnu
- Búa yfir ríkulegri samskiptafærni ásamt öguðum og skipulögðum vinnubrögðum
- Þarf að hafa gott vald á íslensku og ensku og getu til að tjá sig í ræðu og riti
Fjarskiptastofa gegnir mikilvægu hlutverki sem samhæfingarstjórnvald á sviði netöryggis hér á landi. Stofnunin hefur einnig eftirlit með netöryggi fjarskiptafyrirtækja, stafrænna grunnvirkja og veitenda stafrænnar þjónustu. Fjarskiptastofa er einnig virkur þátttakandi í þeim alþjóðlegu verkefnum sem tengjast þróun og framkvæmd netöryggis innan Evrópu.
Það er markmið stofnunarinnar að stuðla að öryggi almennings, fyrirtækja og samfélagsins alls á sviði fjarskipta og netöryggis og er fyrirséð að hlutverk Fjarskiptastofu muni áfram þróast í takt við hraða framþróun stafrænnar tækni og aukna áherslu á netöryggismál.
Á stofnuninni starfar öflugur hópur sérfræðinga á sviði netöryggis, fjarskiptatækni og traustþjónustu, sem vinna saman í skipulagðri teymisvinnu þar sem hver og einn hefur skilgreinda ábyrgð og tækifæri til að hafa áhrif á verkefnin sem unnið er að. Fjarskiptastofa er fjölskylduvænn og skemmtilegur vinnustaður þar sem mikil áhersla er lögð á vellíðan starfsfólks og góðan starfsanda.













