

Sérfræðilæknar á erfða- og sameindalæknisfræðideild
Laus eru til umsóknar tvö störf sérfræðilækna við erfða- og sameindalæknisfræðideild (ESD) Landspítala sem er hluti af klínískri rannsóknar- og stoðþjónustu Landspítala.
Við leitum eftir metnaðarfullum erfðalæknum til að taka þátt í áframhaldandi uppbyggingu deildarinnar. ESD veitir alhliða erfðaheilbrigðisþjónustu og hún er eina deildin sinnar tegundir á Íslandi. Á ESD er göngudeild og ráðgjafaeining. Deildin rekur einnig sérhæfðar rannsóknarstofur. Á síðustu árum hafa orðið miklar framfarir í greiningu á erfðasjúkdómum og eru einstaklingar með greinda sjaldgæfa sjúkdóma ört vaxandi sjúklingahópur og æ fleiri sérhæfðar meðferðir til staðar.
Vinnan er dagvinna og gert ráð fyrir 36 klst. vinnuviku (100% starfshlutfalli). Reynt er að stuðla að betri heilsu og öryggi starfsfólks og auka möguleika þess til að samþætta betur vinnu og einkalíf.
Á ESD fara fram greiningar, ráðgjöf og vísindarannsóknir, kennsla heilbrigðisstétta. Á deildinni starfa um 40 einstaklingar í öflugu þverfaglegu teymi. Góður starfsandi er ríkjandi sem einkennist af vinnugleði og metnaði og markvisst er unnið að umbótum. Við tökum vel á móti nýju samstarfsfólki og veitum góða einstaklingshæfða aðlögun.
Störfin veitast frá 1. maí 2025 eða eftir nánara samkomulagi.



























































