

Hjúkrunarfræðingar á meðferðareiningu geð- og fíknisjúkdóma
Við óskum eftir að ráða hjúkrunarfræðinga á meðferðareiningu geð- og fíknisjúkdóma. Við leitum að hjúkrunarfræðingum í 50-100% starf, dagvinnu eða vaktavinnu eftir samkomulagi.
Markhópur meðferðareiningarinnar eru einstaklingar með tvíþættan vanda; alvarlega geðsjúkdóma og alvarlegan fíknivanda. Undir meðferðareininguna heyra bráðalegudeild, dagdeild (Teigur), göngudeild, vettvangsgeðteymi (Laufeyjarteymi) og afeitrunardeild ólögráða ungmenna. Hjá okkur er góður starfsandi, starfsemin er í stöðugri framþróun og unnið er að fjölbreyttum umbótaverkefnum.
Um er að ræða spennandi og gefandi störf þar sem unnið er í þverfaglegum teymum þvert á meðferðareininguna. Áherslur eru mismunandi á starfsstöðvum en þær eru meðal annars skaðaminnkun, batamiðuð hugmyndafræði, áhugahvetjandi samtal og geðlæknisfræði.
Hjúkrunarfræðingar sinna lykilhlutverki í störfum á einingunni. Þeir sinna allt frá nærþjónustu á vettvangi til sérhæfðra meðferða á bráðalegudeild.
Bæði er leitað að reynslumiklum hjúkrunarfræðingum og hjúkrunarfræðingum sem eru að stíga sín fyrstu skref í geðhjúkrun. Á meðferðareiningunni eru mikil tækifæri til vaxtar og sérhæfingar. Starfsaðlögun er markviss og einstaklingshæfð.
Á geðþjónustu Landspítala er möguleiki að sækja um sérhæft starfsþróunarár fyrir hjúkrunarfræðinga til að efla faglega framþróun og öryggi í starfi. Jafnframt er Landspítali með miðlægt starfsþróunarár.
Upphaf ráðningar er frá 1. apríl 2025 eða eftir nánara samkomulagi.































































