Almennur læknir/ tímabundið starf innan blóðlækninga
Laust er til umsóknar starf almenns læknis innan blóðlækninga á Landspítala. Starfið er tímabundið til 6 mánaða. Upphaf starfs er samkvæmt samkomulagi.
Starfið er mestmegnis á dag- og göngudeild blóð- og krabbameinslækninga en einnig á legudeild að hluta. Unnið er í náinni samvinnu við sérfræðilækna í blóðlækningum. Starfið felur í sér þverfaglega teymisvinnu með fjölmörgum öðrum sérgreinum læknisfræðinnar, s.s. skurðlækningum, lyflækningum, myndgreiningu og meinafræði og öðrum fagaðilum.
Starfið nýtist afar vel þeim sem hafa hug á frekari sérnámi í blóðlækningum en er einnig mjög góður grunnur eða viðbót fyrir þá sem hyggja á frekara sérnám í öðrum greinum, t.d. almennum lyflækningum, heimilislækningum, smitsjúkdómum, lyflækningum krabbameina o.fl.
Starfsumhverfið tengt blóðlækningum er lærdómsmiðað og afar fjölbreytt. Læknirinn fær sérstaka starfslýsingu og skipulagða handleiðslu sérfræðilæknis. Fagleg árvekni og endurskoðun klínískra leiðbeininga og verkferla er hluti af fagmennsku deildarinnar.
Vinnulag byggir á samvinnu fjölmargra starfsstétta með það að markmiði að gera meðferð og þjónustu við einstaklinga sem greinst hafa með blóðsjúkdóm/ krabbamein og ættingja þeirra skilvirkari.