

Aðstoðardeildarstjóri hjúkrunar í Laufeyjarteymi á göngudeild geð- og fíknisjúkdóma
Meðferðareining geð- og fíknisjúkdóma auglýsir laust til umsóknar starf aðstoðardeildarstjóra í Laufeyjarteymi sem heyrir undir göngudeild geð- og fíknisjúkdóma. Við leitum að öflugum hjúkrunarfræðingi í fjölbreytt, krefjandi og skapandi starf á góðum vinnustað.
Markhópur einingarinnar eru einstaklingar með tvíþættan vanda; alvarlega geðsjúkdóma og alvarlegan vímuefnavanda. Undir meðferðareininguna heyra bráðalegudeild, dagdeild, göngudeild, vettvangsgeðteymi og afeitrunardeild ólögráða ungmenna. Hjá okkur er góður starfsandi, starfsemin er í stöðugri framþróun og unnið er að fjölbreyttum umbótaverkefnum.
Laufeyjarteymi þjónustar einstaklinga sem lifa með langvarandi samslætti geðsjúkdóma og fíknar, á því stigi að hvort um sig er alvarlegt og óstöðugt í eðli sínu og fyrri og vægari meðferðarnálganir hafa ekki skilað árangri eða bættum lífsgæðum. Teymið þjónustar einstaklinga í þeirra nærumhverfi. Unnið er eftir hugmyndafræði skaðaminnkunar, batamiðaðri hugmyndafræði, áhugahvetjandi samtals og geðlæknisfræði. Meginverkefni teymisins eru að efla færni og hæfni til sjálfsumönnunar, auka virkni og tengsl við samfélagið og aðstandendur, efla áhugahvöt skjólstæðinga til breytinga og auka þekkingu skjólstæðinga á sjúkdómnum og bjargráðum.
Aðstoðardeildarstjóri Laufeyjarteymis leiðir daglegt starf teymisins í nánu samstarfi við stjórnendateymi meðferðareiningarinnar og kemur að forystu í hjúkrun þvert á meðferðareininguna.
Starfshlutfall er 100% og unnið er í dagvinnu. Starfið er laust frá 1. apríl 2025 eða eftir samkomulagi. Áhugasamir eru hvattir til að hafa samband við Birnu Óskarsdóttur, hjúkrunardeildarstjóra.






























































