Fyrirtækjaskilmálar Alfreðs

1. Fyrirtækjaskilmálar

Skilmálar þessir gilda um þjónustu Alfreð appsins og vefsíðunnar alfred.is. Með því að skrá sig inn í þjónustuna lýsir notandi því yfir að hann hafi lesið, skilið og samþykkt skilmálana í heild sinni, en samþykki skilmálanna er skilyrði fyrir notkun þjónustunnar á annan hátt en með einfaldri skoðun auglýsinga á störfum í boði.

2. Um Alfreð og skilgreiningar á hugtökum

Alfreð er í eigu Alfreð ehf., Skólavörðustíg 11 Reykjavík. Alfreð býður notendum sínum upp á einfalda og nútímalega lausn til að skoða og vakta atvinnuauglýsingar, halda utan um eigin ferilskrá og sækja um störf sem eru í boði og auglýst í Alfreð appinu og/eða á vefsíðunni alfred.is

Alfreð býður fyrirtækjum upp á lausn til að auglýsa störf, taka á móti umsóknum frá notendum Alfreðs, vinna úr umsóknum og eiga samskipti við umsækjendur.

Í skilmálum þessum eiga eftirfarandi skilgreiningar við:

3. Notkun og aðgangur fyrirtækja

3. 1 – Notkun á þjónustunni fyrir fyrirtæki

Notkun á þjónustunni fyrir fyrirtæki felst í stofnun atvinnuauglýsinga, viðhaldi á upplýsingum um fyrirtækið, aðgangsumsjón, umsóknar- og úrvinnslukerfi og samskipti við umsækjendur.

Öll notkun á þjónustunni takmarkast við eðlilegar og lögmætar athafnir. Fyrirtækjum er einungis heimilt að nýta upplýsingar sem varða þau eða umsóknir til þeirra. Óheimilt er að reyna að nálgast upplýsingar sem varða aðra aðila. Alfreð áskilur sér rétt til að meina fyrirtækjum að nota þjónustuna sem hafa áður sýnt af sér ólögmæta eða ósæmilega háttsemi í tengslum við þjónustuna.

3.2 – Aðgangur fyrirtækjanotenda að Alfreð

Aðgangur fyrirtækjanotenda að þjónustunni er tvenns konar:

Stjórnandi

Stjórnandi hefur aðgang að öllum möguleikum í fyrirtækjaþjónustu Alfreðs. Þeir eru:

Fulltrúi

4. Vörumerki

Í fyrirtækjaaðgangi Alfreðs getur fyrirtæki stofnað ótakmarkaðan fjölda vörumerkja í skilningi þessarar greinar. Vörumerki í þessum skilningi eru aðilar í atvinnurekstri sem starfa í tengslum við „stofnfyrirtækið“, t.d. dótturfélög, systurfélög eða rekstrareiningar innan „stofnfyrirtækisins“. Fyrir hvert vörumerki þarf að fylla út ýmsar upplýsingar s.s. nafn, heimilisfang, póstnúmer & stað, símanúmer, vefsíðu o.fl. Hlaða þarf inn eiginlegu vörumerki (e. trademark) vörumerkisins í góðri upplausn. Fyrirtæki sem skrá vörumerki bera sjálf ábyrgð á lögmæti notkunar og réttmæti þeirra upplýsinga sem birt eru um viðkomandi aðila og varðandi vörumerkið í hefðbundnum skilningi (þ.e. sem vörumerkis skv. hugverkarétti (e. trademark)).

5. Umsóknar- og úrvinnslukerfi

Í fyrirtækjaaðgangi Alfreðs er boðið upp á að taka á móti umsóknum frá notendum og vinna úr þeim í úrvinnslukerfi Alfreðs.

5.1 – Upplýsingar um umsækjendur

Þegar notendur Alfreðs sækja um starf með Alfreð prófílnum sínum getur fyrirtækið fengið ýmsar upplýsingar um umsækjendur (s.s. nafn, prófíl mynd, tölvupóstfang, símanúmer, fæðingardagur, kyn, um texti (e. about), menntun, starfsreynsla, tenglar, tungumálakunnátta og önnur hæfni sem umsækjandi tilgreinir) ásamt skjölum sem þeir hafa hengt við prófílinn sinn. Þá getur fyrirtæki óskað eftir frekari upplýsingum í umsóknarferli, sbr. grein 5.2.

Umsóknir eru aðgengilegar í Alfreð fyrir fyrirtæki sem sótt er um hjá í 1 ár frá því þær berast viðkomandi fyrirtæki, nema ef notandi hættir að nýta sér þjónustu Alfreðs. Hætti notandi að nýta sér þjónustu Alfreðs jafngildir það því að umsókn hafi verið dregin til baka og upplýsingar um notanda hverfa úr Alfreð.

Fyrirtækjum er óheimilt að afrita upplýsingar um umsækjendur úr Alfreð kerfinu yfir í önnur kerfi eða nota þær í einhverjum öðrum tilgangi en í ráðningarferli fyrir það starf sem umsækjandinn sótti um.
Fyrirtækjum ber að gæta ítrasta öryggis og trúnaðar við meðferð upplýsinga um notendur og fylgja lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

5.2 – Samskipti við umsækjendur

Fyrirtæki geta átt í samskiptum við umsækjendur í úrvinnslukerfi umsókna. Þar er hægt að senda umsækjanda skilaboð, bjóða honum í viðtal og/eða hafna umsókn hans. Fyrirtækið ber sjálft ábyrgð á öllum samskiptum sem það kann að eiga við umsækjendur.

6. Ábyrgðartakmarkanir

Fyrirtæki gerir sér grein fyrir og samþykkir eftirfarandi ábyrgðartakmarkanir:

Í Alfreð stafa upplýsingar um umsækjendur frá þeim sjálfum og ber Alfreð enga ábyrgð á réttmæti eða lögmæti upplýsinga um umsækjendur. Þá ber Alfreð enga ábyrgð á lögmæti eða réttmæti annarra gagna sem fyrirtæki fær frá umsækjendum eða samskiptum fyrirtækis og umsækjanda.

Alfreð ber ekki ábyrgð á umsóknarferli eða árangri fyrirtækis af því að nota Alfreð. Umsóknarferli er alfarið á ábyrgð fyrirtækisins og verður öllum fyrirspurnum vegna ferlisins beint til þess. Alfreð ber ekki ábyrgð á útlögðum kostnaði eða öðru tjóni sem fyrirtækið kann að verða fyrir hætti umsækjandi við ráðningu, viðtal eða atvinnutilboð.

Alfreð ber ekki ábyrgð á að tilkynningar frá þjónustunni séu án villna, þær berist á réttum tíma eða berist yfir höfuð, þó Alfreð muni leitast við að allar tilkynningar berist og það á tilsettum tíma.

Alfreð ber ekki ábyrgð á efni atvinnuauglýsinga frá fyrirtækjum eða lögmæti þeirra. Alfreð ber ekki ábyrgð á villum, röngum dagsetningum og eða öðrum skilgreiningum sem fyrirtæki skráir við stofnun auglýsingar.

Alfreð ber ekki ábyrgð á efni ráðningasamninga eða hvort ráðning starfsmanns sé í samræmi við lög, s.s. jafnréttislög eða ákvæði laga um vinnu barna og ungmenna.

Alfreð ber ekki ábyrgð á óþægindum eða tjóni sem kann að verða vegna bilana eða galla í þjónustunni, s.s. vegna vélabilana, tæknilegra bilana, hugbúnaðarvillna, kerfisuppfærslna, ágalla á stýrikerfum, netkerfum eða fjarskiptakerfum eða vegna þess að þjónusta fellur niður vegna rafmangsleysis eða rofa eða truflana á fjarskiptaþjónustu.

Fyrirtæki veita upplýsingar í Alfreð, s.s. um þau sjálf og störf í boði, á eigin ábyrgð. Alfreð ber ekki ábyrgð á tjóni sem kann að verða vegna þess að þriðji aðili kemst yfir upplýsingar um fyrirtæki í kerfinu með ólögmætum aðgangi, s.s. vegna tölvuárása. Jafnframt ber Alfreð ekki ábyrgð á meðhöndlun umsækjenda á upplýsingum eða gögnum sem fyrirtæki senda þeim í umsóknarferli.

Alfreð ber ekki ábyrgð á óviðráðanlegum atvikum (force majeure) sem kunna að leiða til þess að ómögulegt er að veita þjónustuna s.s. vegna ákvarðana stjórnvalda, náttúruhamfara, verkfalla eða verkbanna, uppreisna, uppþota, skemmdarverka, hryðjuverka eða styrjalda eða annars konar ámóta atvika sem ekki er unnt að koma í veg fyrir eða hafa stjórn á með eðlilegum ráðum af hálfu Alfreðs.

7. Efni, útlit og vörumerkið Alfreð

Allt efni í Alfreð appinu eða á vefsíðunni alfred.is, s.s. hönnun, textar, grafík, myndir, ljósmyndir, tilkynningar, upplýsingar, vörumerkið Alfreð, íkon (e. icon), hugbúnaður og annað efni er eign Alfreð ehf. og varið samkvæmt höfundarréttar- og vörumerkjalögum á Íslandi og annars staðar. Óheimil notkun, afritun, endurútgáfa og/eða dreifing á þessu efni, hvort heldur sem er að hluta til eða í heild, getur varðað við lög og er því stranglega bönnuð án leyfis Alfreð ehf. Alfreð er skrásett vörumerki. Tekið skal fram að vörumerki (e. trademark) sem fyrirtæki, þ.m.t. vörumerki hlaða upp á Alfreð eru eftir sem áður í eigu viðkomandi rétthafa.

8. Verðskrá

Verðskrá Alfreðs er eftirfarandi:

35 kr. (án vsk) – Einstök opnun auglýsinga í appi og vef
(Hámarksverð fyrir auglýsingu (1.250 opnanir): 43.750 kr. (án vsk))

0 kr. (án vsk) – Hver umsókn um starf með Alfreð prófíl

Verðskrá Alfreðs tekur breytingum á sama hátt og breytingar á skilmálum þessum.

Reikningur vegna notkunar fyrirtækja á þjónustu Alfreðs verður sendur þeim í upphafi hvers mánaðar vegna auglýsinga þeirra sem höfðu lok umsagnarfrests í mánuðinum á undan, þ.e. nýliðnum mánuði.

Komi til vanskila bera reikningar Alfreðs dráttarvexti skv. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, auk innheimtukostnaðar. Hafi vanskil varað lengur en í 45 almannaksdaga frá gjalddaga áskilur Alfreð sér rétt til að loka fyrir aðgang fyrirtækja að þjónustunni.

9. Brot á skilmálum

Komi í ljós að fyrirtæki brjóti gegn skilmálum þessum og/eða misnoti þjónustuna á einhvern hátt áskilur Alfreð sér rétt til að loka tafaralaust fyrir aðgang viðkomandi fyrirtækis án fyrirvara. Það sama á við ef fyrirtæki sýnir af sér ólögmæta eða ósæmilega háttsemi. Við slíkar aðstæður verður stjórnanda fyrirtækis skv. grein 3.2 send tilkynning um að lokað hafi verið fyrir aðganginn.

Vakni grunur um að háttsemi fyrirtækis varði við lög áskilur Alfreð sér rétt til að tilkynna slíkt til viðeigandi yfirvalda.

10. Breytingar á skilmálum og aðrar tilkynningar

Fyrirtæki hefur aðgang að gildandi skilmálum í fyrirtækjaaðgangi sínum hjá Alfreð. Alfreð hefur heimild til að breyta ákvæðum skilmála þessara einhliða. Komi til breytinga munu þær verða kynntar fyrirtækinu með minnst 10 almannaksdaga fyrirvara með tölvupósti. Með samþykki á skilmálum þessum samþykkir fyrirtækið framangreinda aðferð við breytingu á skilmálunum og upplýsingagjöf til þess. Í tilkynningu um breytta skilmála skal vakin athygli á því í hverju breytingar eru fólgnar og rétti fyrirtækis til að hætta að nýta þjónustu Alfreðs.

11. Aðilaskipti að eignarrétti að Alfreð kerfinu

Alfreð ehf. er heimilt að framselja Alfreð kerfið í heild eða að hluta til þriðja aðila ásamt þeim upplýsingum sem eru í kerfinu án samþykkis fyrirtækja. Það sama á við um annars konar aðilaskipti að eignarrétti að Alfreð. Framsal eða önnur aðilaskipti að Alfreð, í heild eða að hluta, hafa engin áhrif á skilmála þessa eða samþykki fyrirtækja fyrir gildi þeirra. Komi til aðilaskipta að Alfreð kerfinu skal tilvísun til Alfreð ehf. í skilmálum þessum þýða tilvísun til nýs eiganda Alfreð kerfisins.

12. Ágreiningur

Skilmálar þessir og notkun Alfreðs lýtur íslenskum lögum og lögsögu íslenskra dómstóla. Ágreiningsmál skulu rekin fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur nema um annað verði samið.

13. Gildistími

Skilmálar þessir eru gefnir út af Alfreð ehf. og gilda frá 27. október 2016 og þar til nýir skilmálar taka gildi.