Notendaskilmálar Alfreðs fyrir einstaklinga

1. Notendaskilmálar

Skilmálar þessir gilda um þjónustu Alfreð appsins og vefsíðunnar alfred.is. Með því að skrá sig inn í þjónustuna lýsir notandi því yfir að hann hafi lesið, skilið og samþykkt skilmálana í heild sinni, en samþykki skilmálanna er skilyrði fyrir notkun þjónustunnar á annan hátt en með einfaldri skoðun auglýsinga á störfum í boði.

2. Um Alfreð og skilgreiningar á hugtökum

Alfreð er í eigu Alfreð ehf., Skólavörðustíg 11 Reykjavík. Alfreð býður notendum sínum upp á einfalda og nútímalega lausn til að skoða og vakta atvinnuauglýsingar, halda utan um eigin ferilskrá og sækja um störf sem eru í boði og auglýst í Alfreð appinu og/eða á vefsíðunni alfred.is

Alfreð býður fyrirtækjum upp á lausn til að auglýsa störf, taka á móti umsóknum frá notendum Alfreðs, vinna úr umsóknum og eiga samskipti við umsækjendur.

Í skilmálum þessum eiga eftirfarandi skilgreiningar við:

3. Notkun og aðgangur notenda

3. 1 – Notkun notenda á þjónustunni

Notkun á þjónustunni felst í skoðun atvinnuauglýsinga, vöktun á störfum samkvæmt skilgreiningu notanda á starfsflokki, tegund (s.s. fullt starf eða hlutastarf) og staðsetningu starfs, viðhaldi notanda á eigin upplýsingum um feril, menntun og aðrar hæfnisskilgreiningar í svokölluðum prófíl, umsóknum notenda um störf og samskipti við fyrirtæki.

Öll notkun á þjónustunni takmarkast við eðlilegar og lögmætar athafnir. Notanda er einungis heimilt að nýta upplýsingar sem hann varða en óheimilt að reyna að nálgast upplýsingar sem varða aðra notendur. Alfreð áskilur sér rétt til að meina einstaklingum að nota þjónustuna sem hafa áður sýnt af sér ólögmæta eða ósæmilega háttsemi í tengslum við þjónustuna.

3.2 – Aðgangur að þjónustunni fyrir notendur

Aðgangur að þjónustunni getur verið þrenns konar:

Innskráning í gegnum Facebook

Notast er við innskráningu notanda hjá Facebook. Með innskráningu samþykkir notandi skilmála þessa og samþykkir þar með að veita Alfreð aðgang að eftirfarandi upplýsingum sem hann kann að hafa gefið upp hjá Facebook: Nafn, mynd, tölvupóstfang, símanúmer, kyn, fæðingadagur, um texti (e. about), menntun og starfsreynsla.

Upplýsingarnar eru eingöngu sóttar þegar notandi skráir sig í fyrsta skipti til að flýta fyrir skráningu á nauðsynlegum upplýsingum um notanda hjá Alfreð. Uppfæri notandi upplýsingar um sig á Facebook þá uppfærast upplýsingarnar ekki sjálfkrafa í Alfreð. Ef framangreindar upplýsingar eru ekki að finna á Facebook aðgangi notanda þá verður hann beðinn um viðbótarupplýsingar þegar hann sækir um starf, a.m.k. þar til 70% fyrirfram ráðgerðra prófíl upplýsinga liggja fyrir.

Innskráning með símanúmeri

Notast er við símanúmer notanda og SMS staðfestingarkóða þegar notandi stofnar aðgang hjá Alfreð. Með innskráningu samþykkir notandi skilmála þessa.

Notandi þarf sjálfur að skrá upplýsingar um sig í prófíl og verður beðinn um viðbótarupplýsingar þegar hann sækir um starf, a.m.k. þar til 70% fyrirfram ráðgerðra prófíl upplýsinga liggja fyrir.

Aðgangur án innskráningar

Með þessum aðgangi er einungis hægt að skoða þær atvinnuauglýsingar sem í boði eru í Alfreð appinu ásamt því að vakta ákveðna starfsflokka, tegundir starfa (s.s. fullt starf eða hlutastarf) og staðsetningu starfs samkvæmt skilgreiningu notanda. Það athugist að skilgreiningar notanda um þessa vöktun eru geymdar í símtækinu og flytjast því ekki yfir í annað tæki skipti notandi um símtæki.

4. Upplýsingar um notendur og umsóknarferli

4.1 – Upplýsingar um notendur og varðveisla þeirra

Innskráningarupplýsingar notanda eru annars vegar Facebook auðkenni hans sjálfs og hins vegar símanúmer hans ásamt SMS staðfestingarkóða sem hann fær sendan frá Alfreð við fyrstu innskráningu. Innskráningarupplýsingar eru ekki geymdar hjá Alfreð.

Notandi er sjálfur ábyrgur fyrir geymslu og leynd innskráningarupplýsinga sinna. Verði notandi var við óeðlilega notkun eða grunar að óviðkomandi hafi vitneskju um innskráningarupplýsingar sínar, þá er það á ábyrgð notanda að grípa til viðeigandi ráðstafana, s.s. að loka tafarlaust fyrir aðgang sinn með Alfreð appinu eða með því að hafa samband við Alfreð á netfanginu alfred@alfred.is

Eftirfarandi prófíl upplýsingar um notanda eru geymdar rafrænt í gagnagrunni hjá Alfreð og fengnar með upplýsingum sem notandi skráir á Facebook (hafi hann innskráð sig með Facebook) eða skráir sjálfur í Alfreð: Nafn, prófíl mynd, tölvupóstfang, símanúmer, fæðingardagur, kyn, staðsetning, um texti (e. about), menntun, starfsreynsla, tenglar, tungumálakunnátta. Eftirfarandi upplýsingar þurfa að vera til staðar ætli notandi sér að sækja um starf: Nafn, tölvupóstfang, símanúmer og fæðingardagur. Þar að auki mun Alfreð biðja um viðbótar upplýsingar ef 70% af framanreindum prófíl upplýsingum liggja ekki fyrir þegar notandi sækir um starf. Þessu til viðbótar getur notandi bætt við upplýsingum um aðra hæfni sína o.fl., auk skjala í viðhengi, myndbandsupptökur í vídeóviðtölum ofl.

Upplýsingar um notanda í Alfreð stafa frá honum sjálfum og er notandi ábyrgur fyrir því að uppfæra upplýsingar sem um hann gilda þannig að þær séu á hverjum tíma réttar og fullnægjandi.

Alfreð fer með upplýsingar um notendur sem trúnaðarmál og gerir viðeigandi ráðstafanir til að gæta öryggis þeirra í samræmi við lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Þegar notandi sækir um starf hjá fyrirtæki samþykkir hann þar með að fyrirtækið fái aðgang að framangreindum upplýsingunum enda er tilgangur upplýsingaöflunar um notanda að aðstoða hann við að eiga samskipti við atvinnurekendur vegna mögulegra starfa. Upplýsingar um notendur Alfreðs eru annars aldrei látnar þriðja aðila í té nema með samþykki notanda.

Ef notandi heimilar með stillingu í Alfreð appinu svokallaðar „Hausaveiðar“, þá samþykkir hann að starfsmönnum Alfreðs sé heimilt að skoða upplýsingar um hann í þeim tilgangi að meta hvort hann sé hæfur í ákveðið starf og mögulega hafa samband við hann vegna starfsins. Fyrirtæki fá ekki aðgang að upplýsingum um notendur sem heimila „Hausaveiðar“ nema með fyrirfram samþykki notandans.

Alfreð mun safna ópersónugreinanlegum upplýsingum um kyn, menntun, aldur, starfsreynslu, staðsetningu og öðrum hæfnisupplýsingum í þeim tilgangi að greina notkun á Alfreð og bjóða fyrirtækjum upp á tölfræðilegar upplýsingar um notkun á Alfreð.

Vilji notandi ekki lengur eiga þess kost á að nýta þjónustu Alfreðs skal hann tilkynna Alfreð um það með því að loka Alfreð í stillingum í Alfreð appinu. Tilkynning notanda um að hann vilji ekki lengur nýta sér þjónustu Alfreðs leiðir til þess að umsóknir hans í gegnum Alfreð eru samtímis dregnar til baka, enda hverfa upplýsingar um notanda úr Alfreð.

Þegar notandi hefur tilkynnt að hann vilji ekki lengur eiga þess kost að nýta þjónustu Alfreðs þá mun Alfreð tæma allar upplýsingar um viðkomandi notanda í gagnagrunni sínum innan 5 virkra daga. Tekið skal fram að Alfreð getur ekki eytt upplýsingum um notanda sem fyrirtæki kann að hafa geymt í tengslum við starfsumsókn og verður notandi að leita til viðkomandi fyrirtækja með slíka beiðni.

4.2 – Umsóknarferli og samskipti vegna umsókna

Hafi notendur áhuga á að sækja um starf senda þeir umsókn til fyrirtækis með þeim upplýsingum sem er að finna í prófíl og þeim viðbótarupplýsingum sem óskað er eftir og þeir kjósa að veita. Fyrirtækið getur haft samband við notanda í gegnum Alfreð appið s.s. til að óska eftir frekari upplýsingum við úrvinnslu þess á umsóknum eða til að boða notanda í viðtal.

Umsækjandi getur dregið umsókn sína til baka hvenær sem er með því að velja þar til gerðan möguleika í umsóknarhluta Alfreð appsins.

Umsóknir eru aðgengilegar í Alfreð fyrir fyrirtæki sem sótt er um hjá í 1 ár frá því þær berast viðkomandi fyrirtæki, nema notandi hætti að nýta sér þjónustu Alfreðs, sbr. grein 4.1.

5. Ábyrgðartakmarkanir

Notandi gerir sér grein fyrir og samþykkir eftirfarandi ábyrgðartakmarkanir:

Alfreð ber ekki ábyrgð á umsóknarferli eða árangri af því að nota Alfreð, enda er umsóknarferli alfarið á ábyrgð fyrirtækisins og skal öllum fyrirspurnum vegna ferlisins vera beint til þess. Alfreð ber ekki ábyrgð á útlögðum kostnaði eða öðru tjóni sem umsækjandi kann að verða fyrir hætti fyrirtækið við ráðningu, viðtal eða atvinnutilboð.

Alfreð ber ekki ábyrgð á að tilkynningar frá þjónustunni séu án villna, þær berist á réttum tíma eða berist yfir höfuð, þó Alfreð muni leitast við að allar tilkynningar berist og það á tilsettum tíma.

Alfreð ber ekki ábyrgð á efni atvinnuauglýsinga frá fyrirtækjum eða lögmæti þeirra. Alfreð ber ekki ábyrgð á villum, röngum dagsetningum og eða öðrum skilgreiningum sem fyrirtæki skráir við stofnun auglýsingar.

Alfreð ber ekki ábyrgð á efni ráðningasamninga eða hvort ráðning starfsmanns sé í samræmi við lög, s.s. jafnréttislög eða ákvæði laga um vinnu barna og ungmenna.

Alfreð ber ekki ábyrgð á óþægindum eða tjóni sem kann að verða vegna bilana eða galla í þjónustunni, s.s. vegna vélabilana, tæknilegra bilana, hugbúnaðarvillna, kerfisuppfærslna, ágalla á stýrikerfum, netkerfum eða fjarskiptakerfum eða vegna þess að þjónusta fellur niður vegna rafmangsleysis eða rofa eða truflana á fjarskiptaþjónustu.

Notandi veitir upplýsingar og sækir um störf á eigin ábyrgð. Alfreð ber ekki ábyrgð á tjóni sem kann að verða vegna þess að þriðji aðili kemst yfir upplýsingar um notanda í kerfinu með ólögmætum aðgangi, s.s. vegna tölvuárása. Jafnframt ber Alfreð ekki ábyrgð á meðhöndlun fyrirtækja á umsóknum og upplýsingum sem notendur senda fyrirtækjum í umsóknarferli.

Alfreð ber ekki ábyrgð á óviðráðanlegum atvikum (force majeure) sem kunna að leiða til þess að ómögulegt er að veita þjónustuna s.s. vegna ákvarðana stjórnvalda, náttúruhamfara, verkfalla eða verkbanna, uppreisna, uppþota, skemmdarverka, hryðjuverka eða styrjalda eða annars konar ámóta atvika sem ekki er unnt að koma í veg fyrir eða hafa stjórn á með eðlilegum ráðum af hálfu Alfreðs.

6. Efni, útlit og vörumerkið Alfreð

Allt efni í Alfreð appinu eða á vefsíðunni alfred.is, s.s. hönnun, textar, grafík, myndir, ljósmyndir, tilkynningar, upplýsingar, vörumerkið Alfreð, íkon (e. icon), hugbúnaður og annað efni er eign Alfreð ehf. og varið samkvæmt höfundarréttar- og vörumerkjalögum á Íslandi og annars staðar. Óheimil notkun, afritun, endurútgáfa og/eða dreifing á þessu efni, hvort heldur sem er að hluta til eða í heild, getur varðað við lög og er því stranglega bönnuð án leyfis Alfreð ehf. Alfreð er skrásett vörumerki. Tekið skal fram að vörumerki (e. trademark) sem fyrirtæki, þ.m.t. vörumerki hlaða upp á Alfreð eru eftir sem áður í eigu viðkomandi rétthafa.

7. Brot á skilmálum

Komi í ljós að notandi brjóti gegn skilmálum þessum og/eða misnoti þjónustuna á einhvern hátt áskilur Alfreð sér rétt til að loka tafaralaust fyrir aðgang viðkomandi notanda án fyrirvara. Það sama á við ef notandi sýnir af sér ólögmæta eða ósæmilega háttsemi. Við framangreindar aðstæður verður notanda send tilkynning um að lokað hafi verið fyrir aðganginn.

Vakni grunur um að háttsemi notanda varði við lög áskilur Alfreð sér rétt til að tilkynna slíkt til viðeigandi yfirvalda.

8. Breytingar á skilmálum og aðrar tilkynningar

Notandi hefur aðgang að gildandi skilmálum í Alfreð appinu og á vefnum alfred.is. Alfreð getur breytt ákvæðum skilmála þessara einhliða. Komi til breytinga munu þær verða kynntar notanda með minnst 10 almannaksdaga fyrirvara með tölvupósti. Með samþykki á skilmálum þessum þá samþykkir notandi framangreinda aðferð við breytingu á skilmálunum og upplýsingagjöf til hans. Í tilkynningu um breytta skilmála skal vakin athygli á því í hverju breytingar eru fólgnar og rétti notanda til að hætta að nýta þjónustu Alfreðs.

Alfreð áskilur sér rétt til að hafa samskipti við notendur þjónustunnar í gegnum SMS skilaboð, tölvupóst og/eða með skilaboðum í gegnum Alfreð appið. Með samþykki skilmálanna samþykkir notandi að Alfreð megi eiga samskipti við hann. Alfreð mun eingöngu senda upplýsingar til notenda er varða þjónustuna en ekki áreiti frá þriðja aðila.

9. Aðilaskipti að eignarrétti að Alfreð kerfinu

Alfreð ehf. er heimilt að framselja Alfreð kerfið í heild eða að hluta til þriðja aðila ásamt þeim upplýsingum sem eru í kerfinu án samþykkis notenda. Það sama á við um annars konar aðilaskipti að eignarrétti að Alfreð. Framsal eða önnur aðilaskipti að Alfreð, í heild eða að hluta, hafa engin áhrif á skilmála þessa eða samþykki notenda fyrir gildi þeirra. Komi til aðilaskipta að Alfreð kerfinu skal tilvísun til Alfreð ehf. í skilmálum þessum þýða tilvísun til nýs eiganda Alfreð kerfisins.

10. Ágreiningur

Skilmálar þessir og notkun Alfreðs lýtur íslenskum lögum og lögsögu íslenskra dómstóla. Ágreiningsmál skulu rekin fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur nema um annað verði samið.

11. Gildistími

Skilmálar þessir eru gefnir út af Alfreð og gilda frá 27. október 2017 og þar til nýir skilmálar taka gildi.